Neytendur

Edda veitti við­skipta­vinum ekki full­nægjandi upp­lýsingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Edda gefur meðal annars út Syrpuna og Disney-bækur á íslensku.
Edda gefur meðal annars út Syrpuna og Disney-bækur á íslensku. Disney

Edda útgáfa hf. braut gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að upplýsa ekki viðskiptavini um ýmsa skilmála, hvorki í fjarsölu né við sölu á netinu. 

Þá var staðfesting samnings ekki send kaupanda á varanlegum miðli þegar gengið hafði verið frá áskrift né voru neytendur upplýstir um frest til að falla frá samningi við Eddu.

Þetta er niðurstaða Neytendastofu í máli einstaklings sem þáði áskriftartilboð Eddu í gegnum fjarsölu (í síma) en var tilkynnt að fimm mánaða binditími væri á áskriftinni þegar hann reyndi að segja henni upp.

Þrátt fyrir að Edda segði alla viðskiptavini upplýsta um skilmála samkvæmt framlögðu handriti benti Neytendastofa meðal annars á að engin leið væri til að staðfesta að upplýsingarnar hefðu sannarlega komið fram í samtali sölumanns og viðskiptavinar.

Edda brást við með því að endursskoða vinnulag og hóf meðal annars að senda tölvupóst á þá sem höfðu áhuga á að kaupa áskrift þar sem allar upplýsingar komu fram. Þá fengu viðskiptavinir senda staðfestingu á samningi áður en fyrsta var var afhent.

Enn gerði Neytendastofa athugasemdir, enda kom í ljós við athugun að einnig væri hægt að ganga frá áskrift á netinu, þar sem enn skorti á lögbundna upplýsingagjöf. Þá gerði stofnunin einnig athugasemdir við að upplýsingar vantaði um heildarverð áskriftar að meðtöldum sendingakostnaði og öðrum gjöldum.

Það var niðurstaða Neytendastofu að Edda hefði brotið gegn ákvæðum áðurnefndra laga en þar sem fyrirtækið hafði brugðist við og gert fullnægjandi úrbætur á upplýsingagjöf sinni taldi Neytendastofa ekki tilefni til frekari aðgerða.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×