Neytendur

Aflýstu flugi að ástæðulausu og greiða skaðabætur

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vueling flýgur á milli Keflavíkurflugvallar og Barselóna á Spáni.
Vueling flýgur á milli Keflavíkurflugvallar og Barselóna á Spáni. Vísir/Vilhelm

Spænska flugfélagið Vueling hefur verið gert að greiða farþegum skaðabætur vegna flugs sem var aflýst vegna veðurs. Í úrskurði Samgöngustofu kemur fram að fluginu hafi verið aflýst að ástæðulausu.

Þann 3. september 2022 var flugi Vueling frá Keflavík til Barselóna aflýst sökum slæmra veðuraðstæðna. Kvartað var til Samgöngustofu og farið fram á skaðabætur til handa farþegum sem var neitað um far í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins.

Vueling hélt því fram að óviðráðanlegar aðstæður hafi leitt til aflýsingar flugferðarinnar.

Í úrskurði Samgöngustofu var leitað til sérfræðings flugrekstrardeildar til að leggja mat á veðurgögn Vueling og skera úr um hvort forsvaranlegt hafi verið að aflýsa fluginu. Í svari hans kom eftirfarandi fram:

„Það er ekkert í gögnunum sem þeir senda sem sýna að veður hafi verið vandamál í Keflavík. Það var TEMPO spá um aðeins lélegt skyggni, en langt yfir öllum lágmörkum fyrir lendingu í Keflavík.“

Með hliðsjón af þessu var talið að aflýsingin félli ekki í flokk óviðráðanlegra aðstæðna í skilningi reglugerðarinnar. Kvartendur fengu því greiddar 400 evrur í skaðabætur í samræmi við reglugerð. 

Áður hefur verið fjallað um fjölda úrskurða Samgöngustofu sem fallið hafa gegn spænska flugfélaginu. Kom þar fram að flugfélagið hafi samtals þurft að greiða um sjötíu farþegum flugfélagsins samtals rúmlega fimm milljónir króna í skaðabætur vegna flugferða sem var ýmist seinkað eða aflýst vegna meints íslensks óveðurs.

Flugvél lággjaldaflugfélagsins Vueling.EPA




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×