Neytendur

Loka Fabrikkunni til að komast að því hvers vegna fólk veiktist

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rekstraraðilar Fabrikkunnar segja að allt verði gert til þess að koma í veg fyrir að gestir Kringlunnar veikist að nýju.
Rekstraraðilar Fabrikkunnar segja að allt verði gert til þess að koma í veg fyrir að gestir Kringlunnar veikist að nýju. Hamborgarafabrikkan

Ham­borgara­fabrikkan kannar hvers vegna veitinga­húsa­gestir í Kringlunni urðu veikir eftir að hafa snætt á veitinga­staðnum um helgina. Fram­kvæmda­stjórinn segir allar slíkar á­bendingar teknar al­var­lega. Staðnum hefur verið lokað í dag á meðan unnið er að sótt­hreinsun og sósur sendar í greiningu. Ekki sé rétt að lirfa hafi fundist í ham­borgara staðarins.

Gestur veitinga­hússins lýsir reynslu sinni af ferð á staðinn á sam­fé­lags­miðlinum Face­book á um­ræðu­hópnum Matar­tips! Gesturinn segist hafa farið á Ham­borgara­fabrikkuna í Kringlunni um helgina með hópi fólks þar sem allir sem borðað hafi ham­borgarann Morthens hafi orðið veikir.

Veikindin virðast þó ekki einungis mega reka til þess ham­borgara miðað við svör gesta á um­ræðu­þræðinum á Face­book sem ýmsir fengu sér einnig aðra rétti. Benda ein­hverjir gestir á að nóró­veiran gangi nú manna á milli og gætu veikindin hugsan­lega verið rekin þangað.

Vísir hefur rætt við tvo gesti sem fengu sam­bæri­lega maga­pest eftir að hafa snætt á veitinga­húsinu í Kringlunni um helgina. Báðir segjast hafa orðið mjög veikir í einn dag og orku­litlir þann næsta. Þó nokkur fjöldi lýsir svipaðri reynslu á Face­book hópnum eftir að hafa snætt á Fabrikkunni undan­farna daga.

Einn gesta segist hafa farið i Kringluna með konunni sinni að snæða á föstu­daginn síðasta. „Skelltum okkur svo til út­landa og erum búin að vera með upp og niður fyrstu dagana. Alveg ömur­legt. Konan mín fékk sér ein­mitt Morthens og ég smakkaði hann, ef það skiptir máli. Strákurinn okkar fékk sér sem betur fer grjóna­graut og virðist hafa sloppið.“

Engu nær enn

María Rún Haf­liða­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Fabrikkunnar, segir í sam­tali við Vísi að staðnum í Kringlunni hafi verið lokað í dag. Öllum slíkum á­bendingum sé tekið mjög al­var­lega.

„Við rekjum okkur til baka hrá­efna­leiðina og förum yfir alla mögu­lega or­saka­valda. Sú vinna er í gangi,“ skrifar María í svörum til veitinga­húsa­gesta á Face­book.

„Við erum engu nær og á­kváðum að hafa lokað í dag í Kringlunni. Hér er bara verið að spritta hátt og lágt. Við erum auk þess búin að fara með á­kveðnar sósur í greiningu til að at­huga hvort það gætu verið eggja­rauður sem gætu verið kveikjan að þessu.“

María Rún Hafliðadóttir, framkvæmdastjóri Fabrikkunnar, segir unnið að því að sótthreinsa allt hátt og lágt á staðnum í dag. Hamborgarafabrikkan

María segir rekstrar­aðila eðli málsins sam­kvæmt vera miður sín yfir málinu. Unnið sé að því að farga mögulegum orsakavöldum og sótt­hreinsa. Lík­legt sé að gestirnir hafi setið á svipuðum stað á veitinga­staðnum.

„Við erum bara að gera allt til þess að bregðast við. Við vonum að að­gerðir dagsins komi í veg fyrir að þetta endur­taki sig. Það er erfitt að komast að því hver or­sökin er, hvort um sé að ræða nóró eða eitt­hvað tengt matnum. En við viljum gera allt til að komast að niður­stöðu, þannig að þetta er á­kveðin rann­sóknar­vinna.“

María segir berna­ise sósu vera á Morthens og sú sósa hafi meðal annars farið í greiningu. „Ekki það að maður vilji hengja sig á eitt­hvað eitt en það er gott að vita hver or­sökin eru. Ef það er ein sósa þá er ein­faldara að bregðast við.“

Svo gæti verið að bernaise sósan sé orsakavaldurinn.

Ekki rétt að lirfa hafi fundist í borgara

Þá birtist skjá­skot á um­ræðu­þræðinum á Face­book þar sem full­yrt var að þjónn Fabrikkunnar hefði til­kynnt kokki að fundist hefði lirfa í ham­borgara. María segir það ekki rétt.

„Það var víst padda á salat­blaði og við­skipta­vinur benti á það en gerði ekkert meira úr því. Þetta var því ekki lirfa í kjöti, heldur ekkert annað en græn­metis­padda sem stundum fylgir græn­meti, því miður.“

María segir stefnt að því að opna Ham­borgara­fabrikkuna í Kringlunni aftur á morgun. Beðið verði eftir niður­stöðum úr greiningum á sósum.

„Hér eru allir á meðan að sótt­hreinsa og þrífa. Auð­vitað er erfitt að greina hvort þetta sé af völdum mat­væla eða eitt­hvað sem smitast manna á milli en við gerum allt sem við getum til þess að hafa hlutina í réttu standi.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×