Atvinnulíf

Trixið sem klikkar ekki: Að koma sér í gang í vinnunni

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Stundum virðumst við eiga erfitt með að keyra okkur í gang í vinnunni. Mætum en drollum í tuttugu mínútur því að við einhvern veginn náum ekki að koma okkur af stað fyrir alvöru. En það er til einfalt og sannreynt trix við þessu. Sem meira að segja rannsóknir hafa útskýrt hvers vegna virkar.
Stundum virðumst við eiga erfitt með að keyra okkur í gang í vinnunni. Mætum en drollum í tuttugu mínútur því að við einhvern veginn náum ekki að koma okkur af stað fyrir alvöru. En það er til einfalt og sannreynt trix við þessu. Sem meira að segja rannsóknir hafa útskýrt hvers vegna virkar. Vísir/Getty

Við höfum öll upplifað það að vera mætt í vinnuna en eiga erfitt með að koma okkur í gang. Ekkert endilega vegna þess að við erum þreytt eða syfjuð, heldur einfaldlega náum við ekki að bretta þannig upp ermarnar að við keyrumst í gang.

Kannist þið við þetta?

Hér er þá gott trix að læra. Því þetta trix er einfaldlega sagt að sé leið sem klikki ekki….

En við skulum byrja á byrjuninni.

Sem er dæmisaga.

Því að margir vilja meina að það hvernig við byrjum vinnudaginn okkar, eða vaktina eða á hvaða vinnutíma sem við erum að vinna, þá skipti öllu máli hvernig til tekst í byrjun vinnutímans.

Ráðið sem við erum að fara að læra er reyndar þekkt og gamalt, en nýverið skýrði Fastcompany það út með dæmisögu um konu, sem er þekktur sérfræðingur um allan heim og heiðursmeðlimur í Oxford háskólanum og heitir Rachel Botsman. 

Botsman er ein þeirra sem segist vera búin að sannreyna trixið.

Þannig var að Botsman hafði þá venju lengi að setjast við skrif klukkan sex á morgnana og skrifa alveg á fullu til klukkan níu. 

Á þessum þremur tímum, náði Botsman að afkasta meiru en henni fannst hún annars ná að gera, jafnvel á heilum degi.

Botsman var því sannfærð um að þetta væri einfaldlega hennar besti vinnutími, sá tími þar sem hún ætti helst að fókusera á skrifin sín.

Þegar Botsman eignaðist hins vegar börn, breyttist þessi rútína. Botsman hafði þar af leiðandi ekki tök á því lengur að setjast við skrif á þessum tíma sólahringsins.

Og þá voru góð ráð dýr!

En Botsman lærði trixið, þannig að hún gæti náð þessum sömu afköstum á þremur klukkustundum, þótt það væri ekki lengur á milli klukkan sex og níu.

Trixið er þetta:

Þú klárar ekki deginum áður!

Hvernig og hvers vegna?

Það sem verið er að meina með þessu er að í stað þess að klára verkefnið sem þú varst í deginum áður, þá skilur þú eitthvað smá eftir.

Sérstaklega ef þetta er verkefni sem þér finnst skemmtilegt og jafnvel finnur að þú ert í góðu flæði með að klára.

Galdurinn snýst ekki um að skilja mikið eftir, heldur smá eftir.

Það sem gerist þá, er að þegar þú mætir aftur til vinnu, er hugurinn þegar klár í slaginn: Klárum segir hann!

Og við trekkjumst í gang.

Því hugurinn er þegar með á hreinu hvað á að gera.

Sumir kalla þessa aðferð Hemingway trixið. Því rithöfundurinn Ernest Hemingway var einmitt sagður gera þetta.

Ef hann var í góðu stuði að skrifa, hélt hann ekki endalaust áfram heldur stoppaði einhvers staðar þar sem setning hjá honum var jafnvel bara hálfnuð.

Fleiri rithöfundar hafa tekið undir og sagt trixið hans Hemingway virka.

Rannsóknir hafa reyndar tekið þetta fyrir í tæplega öld. Þar sem verið er að skoða hvernig hugurinn fer að því að eins og geyma upplýsingar um hvað þarf að gera þegar við erum að vinna.

Sem dæmi má nefna þjóna. Sem þrátt fyrir annríki virðast muna ótrúlega margt. Hvað viðskiptavinirnir eru að panta, á hvaða borði þeir sitja og svo framvegis. Þrátt fyrir rennerí af fólki allan daginn.

Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að þegar að hugurinn er eins og stoppaður af með hálf klárað verkefni, þá er hann sérstaklega á vaktinni með það sem þarf að klára.

Sem í tilviki þjóna á þá við um viðskiptavini á meðan þeir eru á staðnum. Um leið og þeir eru farnir, er verkefninu lokið, þjónninn hreinsar út upplýsingarnar um þetta borð og einbeitir sér að næstu viðskiptavinum og svo koll af kolli.

Hvernig getum við nýtt þetta?

Jú, með því að prófa okkur áfram. Í stað þess að vera að drolla fyrstu 20 mínúturnar í vinnunni vegna þess að okkur finnst við ekki keyrast í gang og vitum varla á hvaða nýja verkefni við eigum að byrja, brettum við upp ermarnar og klárum verkefnið sem við viljandi kláruðum ekki í gær.

Gangi ykkur vel.


Tengdar fréttir

Erfitt að ræða launin í vinnunni

Það er staðreynd að eitt af erfiðustu umræðuefnum fólks eru samtöl um peninga. Þessi samtöl eru oft erfið á milli hjóna, þau geta líka verið erfið á milli vina þar sem deila þarf kostnaði eða ræða kostnað.

Að takast á við höfnun í vinnunni

Að upplifa höfnun er ótrúlega algengt fyrirbæri. Bæði í starfi og einkalífi. Oftar en ekki er þetta höfnunartilfinning byggð á misskilningi. Eitthvað sem við ímyndum okkur sjálf, erum sannfærð um að sé rétt og túlkum rangt í samskipti eða hegðun.

Fyrir stjórnendur sem eru með nefið ofan í öllu

Það telst úreld stjórnunaraðferð í dag að ofstjórna. Að vera með puttana ofan í öllu sem starfsfólk gerir, fara yfir allt sem gert er, telja sig geta gert hlutina betur eða best, að engum sé treystandi nema þú sért inn í öllu og með tak á öllu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×