Viðskipti innlent

Icelandair hefur sam­starf við Tur­kish Air­lines

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Með samstarfssamningi Icelandair og Turkish Airlines munu farþegar flugfélaganna geta nýtt sér betri tengingar en áður.
Með samstarfssamningi Icelandair og Turkish Airlines munu farþegar flugfélaganna geta nýtt sér betri tengingar en áður. Icelandair

Icelandair og Turkish Airlines undirrituðu í morgun samstarfssamning sem felst í því flugfélögin munu geta boðið viðskiptavinum sínum tengingar á milli leiðakerfa sinna og þannig aukið úrval tengimöguleika.

Með samningnum munu farþegar Icelandair frá Norður-Ameríku og Íslandi geta ferðast í austurátt með Turkish Airlines til Istanbúl. Þá munu farþegar Turkish Airlines geta ferðast frá fjölda áfangastaða, meðal annars í Asíu og Miðausturlöndum, í vesturátt til Íslands og Kanada.

Samningurinn var undirritaður í Istanbúl fyrr í dag á aðalfundi IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga. 

Í fréttatilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn stórauki framboð á þægilegum tengingum þar sem viðskiptavinir ferðast á einum farmiða og innrita farangurinn alla leið á lokaáfangastað.

Fulltrúar Icelandair og Turkish Airlines við undirritun samningsins í morgun.Icelandair

„Það er spennandi að tilkynna Turkish Airlines, það flugfélag sem flýgur til flestra landa í heiminum, sem nýjasta samstarfsflugfélag okkar. Okkar stefna er að gera samstarfssamninga við flugfélög sem veita góða þjónustu og opna ný og spennandi ferðatækifæri. Með þessum nýja samningi tengjum við á milli leiðakerfa flugfélaganna og stóraukum ferðamöguleika fyrir viðskiptavini okkar,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um samninginn og Turkish Airlines sem flýgur til 344 áfangastaða í 129 löndum.

Það er ánægjulegt að undirrita þennan samstarfssamning við Icelandair. Með samningnum viljum við auka úrval ferðamöguleika fyrir viðskiptavini okkar. Einnig erum við ánægð með að þessi samstarfssamningur við Icelandair mun skila miklum viðskiptalegum ávinningi til beggja flugfélaga,“ sagði Bilal Ekşi, forstjóri Turkish Airlines, við sama tækifæri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×