Viðskipti innlent

Mesta hækkun í­búða­verðs í níu mánuði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5 prósent í mars.
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5 prósent í mars. Vísir/Vilhelm

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,5 prósent milli mánaða í mars. Er það mesta hækkun síðan í júní á síðasta ári. Alls voru undirritaðir 485 kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu í mars.

Þetta kemur fram í Hagspá hagfræðideildar Landsbankans. Vísitalan hækkaði einnig í febrúar en mánuðina þrjá þar á undan hafði hún lækkað.

Markaðsverð húsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði um þrjú prósent milli mánaða sem er það mesta síðan í júlí í fyrra. Þessar hækkanir renna frekari stoðum undir spá Landsbankans um áframhaldandi stýrivaxtahækkanir á næstunni. 

Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkar mun meira en fjölbýli. Sérbýli hækkar um 3,4 prósent en fjölbýli um eitt prósent. 

Árshækkun vísitölunnar mælist nú 10,7 prósent og lækkar hratt með hverjum mánuðinum sem líður nú þegar miklir hækkunarmánuðir síðasta árs detta út úr vísitölunni. Fjölbýli hefur hækkað um 11,0 prósent á síðustu tólf mánuðum og sérbýli um 10,6 prósent.

Fáir kaupsamningar voru undirritaðir í mars eða 485 talsins. Er það 19 prósent færri en í mars í fyrra. Í mars árið 2021 voru samningarnir 1.130 talsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×