Neytendur

Spá því að verðbólgan lækki um 0,3 prósentustig

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gangi spá Landsbankans eftir fer verðbólgan niður fyrir átta prósent í júlí.
Gangi spá Landsbankans eftir fer verðbólgan niður fyrir átta prósent í júlí. VÍSIR/VILHELM

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólgan lækki úr 9,8 prósentum í 9,5 prósent í aprílmánuði. Spáin næstu mánuði gerir ráð fyrir því að verðbólga lækki og fari niður fyrir átta prósent í júlí. 

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59 prósent milli mánaða í mars og dróst þá ársverðbólgan niður í 9,8 prósent. Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans er því spáð að vísitalan hækki um eitt prósent milli mánaða en gangi það eftir mun ársverðbólga lækka í 9,5 prósent.

Skýring Seðlabankans á hvað verðbólga er:

Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs. Sú vísitala mælir meðalverð á vörum og þjónustu sem heimili á Íslandi kaupa í hverjum mánuði. Verðbólga felur í sér að verðgildi og kaupmáttur peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu.

Síðastliðið ár hefur verðið á kaffi, tei og kakói hækkað mest eða um 17,7 prósent. Næst kemur grænmeti í 17,5 prósentum og svo kjöt í 16,5 prósentum. 

Hagfræðideildin segir íbúðaverð hafa hækkað óvenjulega mikið milli mánaða í mars eða um 1,5 prósent. Það er mesta hækkunin síðan í júní í fyrra og mun hafa áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs. 

Spáir deildin því að verðbólgan muni halda áfram að lækka næstu mánuði og fara niður fyrir átta prósentin í júlí. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×