Neytendur

Deildu um leigu á gisti­heimili vegna brúð­kaups í Svarfaðar­dal

Atli Ísleifsson skrifar
Húsabakki í Svarfaðardal.
Húsabakki í Svarfaðardal. Wikipedia Commons/Ahjartar

Héraðsdómur Reykjaness hefur leitt til lykta deilu rekstrarfélags gistiheimilisins Húsabakka í Svarfaðardal á Tröllaskaga og manns um leigu á herbergjum í tengslum við brúðkaup sem haldið var í ágúst síðastliðinn. Bæði var deilt var um nýtingu á hótelherbergjum, afslætti og að ekki hafi allir gestir fengið þá gistingu sem lofað var.

Rekstrarfélagið ákvað að leita til dómstóla þar sem það vildi meina að skuldbindandi samningur hafi verið gerður um að gestir mannsins myndi gista í öllum gistirýmum gistiheimilis bæði föstudag og laugardag umrædda helgi gegn greiðslu ákveðinnar fjárhæðar.

Maðurinn hafi hins vegar einungis greitt hluta hennar, þó að hann teldi sig hafa greitt fyrir leiguna að fullu þar sem hann hafi gert rekstraraðilum ljóst að ekki yrði þörf á að nýta öll gistiherbergin og því ætti að greiða lægri upphæð. Hann vildi sömuleiðis meina að hann ætti rétt á afslætti eða skaðabótum vegna annmarka á þjónustu á gistiheimilinu.

Upphaflegt verðtilboð, fyrir leigu á öllu gistiheimilinu, nam 718 þúsund krónum. Fram kemur í dómi að rekstraraðila hafi mátt vera ljóst að tilboðinu hafi verið hafnað af manninum þar sem hann hafi tilkynnt rekstraraðilum þegar nær dró að ekki væri þörf á að nýta öll herbergin.

Úr Svarfaðardal.Wikipedia Commons/Árni Hjartarson

Dómari taldi hins vegar rétt að miða við upphaflegt verðtilboð, að frádregnum um 56 þúsund krónum sem rekstrarfélagið hafi fengið vegna útleigu herbergja til annarra en brúðkaupsgesta.

Þurfti að gista á Dalvík vegna plássleysis

Varðandi kröfu mannsins um að hann ætti rétt á bótum eða afslætti vegna vanefnda kemur fram að tveir brúðkaupsgesta hafi ekki fengið þau herbergi sem þeim hafi verið ætlað. 

Í öðru tilvikinu hafi starfsmaður gistiheimilisins fyrirvaralaust látið færa farangur brúðkaupsgesta sem þau höfðu komið sér fyrir í og yfir í minna herbergi til að rýma fyrir einstaklingum utan gestahóps mannsins. Þannig hafi einn í fjölskyldunni þurft að gista á dýnu á gólfinu.

Þá hafi annar brúðkaupsgesta misst herbergi sitt vegna mistaka í bókunum starfsmanna gistiheimilisins og neyðst til að gista á Dalvík vegna plássleysis á Húsabakka.

120 þúsund króna afsláttur en 250 þúsund í málskostnað

Dómari féllst á að aðstæður á gistiheimilinu hafi ekki verið forsvaranlegar eða í samræmi við það sem maðurinn mátti vænta er hann gekk til samninga. Dómari taldi því manninn eiga rétt á 120 þúsund króna afslætti.

Niðurstaða dómara var því sú að maðurinn ætti að greiða 541.946 krónur, að frádreginni innborgun sem gerð var í lok september síðastliðinn, upp á 438.639 krónur. Manninum var hins vegar gert að greiða 250 þúsund krónur í málskostnað.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×