Neytendur

Fanta­mikill Fanta-skortur til­kominn vegna nýs véla­búnaðar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það hefur verið Fanta-skortur á landinu undanfarið.
Það hefur verið Fanta-skortur á landinu undanfarið. Samsett/Vísir/Coca-Cola

Neytendur hafa tekið eftir því undanfarið að Fanta og Coke Light hafa verið illfáanleg í verslunum. Ástæðan er hik á framleiðslu drykkjanna í kjölfar fjárfestingar Coca-Cola á nýjum vélabúnaði hérlendis. Markaðsstjóri segir fyrirtækið reyna að anna eftirspurn en þurfi líka að forgangsraða.

Ástæðan fyrir skorti á ýmsum drykkjum Coca-Cola í verslunum er að sögn Stefáns Magnússonar, markaðsstjóra óáfengra drykkja hjá Coca-Cola, tilkomin vegna breytinga á vélabúnaði og hiks í framleiðslu í kjölfar þeirra. 

Breytingarnar eru m.a. tilkomnar vegna Evróputilskipunar sem skyldar framleiðendur til að framleiða flöskur með áföstum töppum.

„Við erum að fjárfesta í nýjum vélabúnaði og það var smá hik til að byrja með en þetta er allt komið á fullt,“ sagði Stefán Magnússon aðspurður út í meintan Fantaskort. Og bætti strax við „En það er nóg til í dósum.“

Reyna að sinna eftirspurninni en þurfa að forgangsraða

„Við vorum að skipta út línunum okkar og fórum í umhverfisvænni vélabúnað og þurftum að byggja upp lager sem átti að duga í heilan mánuð, taka niður gömlu vélarnar og setja inn þær nýju. Það er allt komið í gang en það voru einhver vörunúmer sem kláruðust,“ sagði Stefán um breytingarnar.

Nýju tapparnir hafa fengið mjög góðar viðtökur hjá viðskiptavinum Coca Cola á Íslandi.Aðsend

„Við erum bara að reyna að anna eftirspurninni en erum smá eftir á í þessu sem getur gerst þegar það er verið að gera eitthvað nýtt.“

Stefán segir að þau séu að framleiða allt á fullu en þurfi þó að forgangsraða. „Við framleiðum fyrst það sem selst best,“ segir hann og bætir við að svona stórum breytingum fylgi líka strangari gæðaúttektir en vanalega sem séu tímafrekar.

Flöskurnar með áföstu töppunum sem Vísir fjallað um nýlega er hluti af þessari nýju línu sem Coca-Cola er að ráðast í. 

Að sögn Stefáns eru nýju tapparnir mikil breyting fyrir neytendur og það sé viðbúið að einhverjir verði ósáttir og muni þurfa að venjast breytingunum. Aftur á móti sé þetta krafa á alla framleiðendur í Evrópu enda Evróputilskipun. Þetta sé því framtíðin hjá öllum.


Tengdar fréttir

Nýtt á Íslandi - Áfastir tappar á plastflöskum

Nýir tappar á plastflöskur hafa fengið góðar viðtökur en tappana er hægt að sveigja aftur án þess að losa hann af flöskunni. Tilgangurinn er að allt plast, sem fylgir flöskunni sé endurunnið saman.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×