Innlent

Eldur kviknaði í ís­skáp

Máni Snær Þorláksson skrifar
Eldur kviknaði í ísskáp á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Eldur kviknaði í ísskáp á höfuðborgarsvæðinu í dag. Vísir/Vilhelm

Eldur kviknaði í ísskáp á höfuðborgarsvæðinu í dag. Lögreglan fór á vettvang ásamt slökkviliði í kljölfar þess sem tilkynning um eldinn barst. Eldurinn var farinn að dreifa sér um eldhúsið en slökkviliði tókst að slökkva eldinn. Tæknideild lögreglu mætti einnig á vettvang. 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni um verkefni dagsins. Einnig var tilkynnt um innbrot í 105 Reykjavík. Lögreglan ræddi við þann sem hafði samband vegna innbrotsins. Sá sagðist hafa séð aðila ganga tómhenta inn í húsnæðið en þegar þeir fóru út voru þeir með einhverja muni. Málið er nú í rannsókn.

Athygli vekur að lögreglan fjarlægði skráningarmerki af alls fimmtán bifreiðum í dag. Fram kemur að tveir aðilanna höfðu ekki farið með bílinn í aðalskoðun og því voru skráningarmerkin tekin af.  Þá var einn ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur en sá keyrði á 113 kílómetrum á klukkustund þar sem hámarkshraði var 80 kílómetrar á klukkustund. 

Ásamt því kemur fram að þegar lögreglan var við eftirlit í miðbænum í morgun hafi hún komið auga á mann sem lá í jörðinni. Eftir að hafa rætt við manninn, sem var mjög ölvaður að sögn lögreglu, var honum ekið heim til sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×