Innlent

Árni yfirgefur Moggann og gengur til liðs við RÚV

Jakob Bjarnar skrifar
Margir eiga erfitt með að nefna Morgunblaðið ekki í sömu andrá og Árna Matthíasson, en hann hefur verið mikilvægur starfsmaður blaðsins í um fjóra áratugi. Hann er nú genginn til liðs við erkióvininn Ríkisútvarpið.
Margir eiga erfitt með að nefna Morgunblaðið ekki í sömu andrá og Árna Matthíasson, en hann hefur verið mikilvægur starfsmaður blaðsins í um fjóra áratugi. Hann er nú genginn til liðs við erkióvininn Ríkisútvarpið. vísir/vilhelm

Árni Matthíasson fyrrverandi netritstjóri Morgunblaðsins, pistlahöfundur og blaðamaður þar til fjörutíu ára hefur yfirgefið Hádegismóa og gengið til liðs við Ríkisútvarpið.

Árni er fæddur árið 1957 og var áratugum innsti koppur í búri hvað varðar mbl.is sem lengi var víðlesnasti fréttavefur landsins þar til Vísir greip þann kyndil. Þannig má segja að þetta geti talist nokkurt áfall fyrir Morgunblaðið, að missa einn sinn mikilvægasta mann og það yfir til erkióvinarins Ríkisútvarpsins en ef marka má leiðaraskrif blaðsins undanfarin árin eru litlir kærleikar milli þessara tveggja miðla.

Fyrsti dagur Árna í stofnuninni við Efstaleitið var í dag. Vísi hefur ekki tekist að ná í Árna en gamla Mogga-símanúmerið hans, sem margir kunna utanbókar, er óvirkt.

Eftir því sem Vísir kemst næst verða dagskrárgerð og ráðgjafastörf nokkuð sem meðal annars verður á könnu Árna en hann fjallaði á löngum tíma um tónlist á síðum Morgunblaðsins. Fáir hafa til að mynda skrifað eins mikið um Björk og Sykurmolana og svo Bubba en Árni sendi frá sér bók um hann fyrir tveimur árum. Þannig að tónlistardeild Ríkisútvarpsins ætti að geta ausið af þeim viskubrunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×