Viðskipti innlent

Er­lendum ferða­mönnum fjölgaði um 146 prósent árið 2022

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ferðamenn á Skólavörðustíg.
Ferðamenn á Skólavörðustíg. Vísir/Vilhelm

Brottförum erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 146 prósent milli ára, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Brottfarir voru 1,7 milljón árið 2022, um milljón fleiri en árið 2021.

Um 73 prósent brottfara árið 2022 áttu sér stað seinni hluta árs, frá júní og til desember. Bandaríkjamenn voru ríflega fjórðungur allra brottfara, Bretar 14 prósent og Þjóðverjar 8 prósent.

„Leita þarf sex ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega eða til ársins 2016 en þá mældist fjöldi þeirra tæplega 1,8 milljón. Fjöldi brottfara mældist mestur á árunum 2017 til 2019 eða á bilinu tvær til tvær komma þrjár milljónir,“ segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Brottfarir Íslendinga voru 586 þúsund talsins árið 2022, um það bil 367 þúsund fleiri en árið 2021. Um er að ræða 167 prósent aukningu milli ára. Brottfarirnar voru flestar í október, 72 þúsund. 

„Um er að ræða fjórða stærsta ferðaár Íslendinga hvað utanferðir varðar frá því að Ferðamálastofa hóf talningar árið 2002.“

Hér má finna tilkynningu Ferðamálastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×