Erlent

Síðasti konungur Grikk­lands fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Anna-María og Konstantín II í Aþenu árið 2014.
Anna-María og Konstantín II í Aþenu árið 2014. Getty

Konstantín annar, síðasti konungur Grikklands, er fallinn frá, 82 ára að aldri.

Læknir konungsins heitins segir að Konstantín hafi látist á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Aþenu í gærkvöldi að því er segir í frétt BBC.

Konstantín annar tók við grísku krúnunni á róstursömum tímum í landinu, árið 1964. Fór svo að herinn tók við völdin í landinu þremur árum síðar.

Konstantín annar neyddist til að flýja land skömmu síðar í kjölfar misheppnaðrar tilraunar til að koma hinni nýju herforingjastjórn frá völdum. Gríska konungsveldið var svo afnumið árið 1973 og var Konstantín þá sviptur grískum ríkisborgararétti sínum.

Árið 2002 greiddi gríska ríkið Konstantín og fjölskyldu hans bætur vegna fasteigna þeirra sem höfðu á sínum tíma verið gerð upptæk.

Konstantín var kvæntur Önnu-Maríu Danaprinsessu, yngri systur Margrétar Þórhildar Danadrottningar, og eignuðust þau fimm börn saman.

Konstantín hafði mikinn áhuga á siglingum og vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960 í liðakeppni. Hann átti svo síðar eftir að taka sæti í Alþjóðaólympíunefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×