Jól

Fólk ætti að slaka á væntingunum fyrir jólin: „Það er rosa­leg geð­veiki í gangi“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Ásgerður Guðmunds frá Vinnuheilsu hvetur fólk til þess að minnka kröfurnar og leyfa ekki pressunni um fullkomin jól að hafa áhrif á sig.
Ásgerður Guðmunds frá Vinnuheilsu hvetur fólk til þess að minnka kröfurnar og leyfa ekki pressunni um fullkomin jól að hafa áhrif á sig. Getty/elenaleonova

Hátíð ljóss og friðar getur verið erfiður tími fyrir marga af ýmsum ástæðum. Allt of margir miða sig við jólaglansmyndina sem birtist okkur á samfélagsmiðlum og eru svo með nagandi samviskubit yfir því að raunveruleikinn sé allt annar.

„Það eru svo margir að búa til streitu með því að segja alls konar við okkur. Maður fær sektarkennd og samviskubit yfir því að vera ekki búin að gera allt,“ segir Ásgerður Guðmundsdóttir frá Vinnuheilsu sem ræddi málið við Ósk Gunnars á FM957.

Jólin á samfélagsmiðlum oft bara tilbúningur

Þessa dagana eru samfélagsmiðlar fullir af brosandi börnum, skreyttum heimilum, heimabökuðu gúmmulaði og fullkomnum pökkum.

„Þetta er oft bara tilbúningur,“ segir Ásgerður sem minnir fólk á að vera ekki að miða sig við það sem þeir sjá á samfélagsmiðlum. Desember sé erfiður mánuður fyrir marga og það þurfi ekki allt að vera fullkomið fyrir jólin.

„Það er alveg ástæða fyrir því að fólk er kannski ekkert búið að gera allt. Það er að drukkna í vinnu. Það eru kannski margir með fjárhagsáhyggjur og það er einmanaleiki. Það eru veikindi og alls konar í gangi.“

Fjölmargir eiga erfitt með umstangið og stressið sem fylgir jólunum.Getty/knape

„Rosaleg geðveiki í gangi“

Þá geta spurningar eins og „ertu búin að kaupa allar gjafir?“ eða „ertu búin að öllu fyrir jólin?“ verið mjög streituvaldandi og við ættum að forðast það að leggja áherslu á þessa hluti sem skipta í raun engu máli þegar upp er staðið.

„Það eru allir að gera sitt á sínum eigin forsendum og maður getur stressast svo mikið upp þegar svona er sagt við mann. Maður heyrir alveg og sér það til dæmis á umferðinni að það er rosaleg geðveiki í gangi. Þessi tími er alveg sérstaklega streituvaldandi,“ segir Ásgerður.

Jólin koma sama hvað

Hún hvetur fólk til þess að staldra við, sleppa tökunum og leyfa ekki utanaðkomandi pressu að ná tökum á sér. Það þurfi ekki allt að vera heimabakað, það megi kaupa hlutina tilbúna úti í búð.

Ef fólk á eftir að græja síðustu jólagjafirnar eða klára einhverja hluti fyrir jól, ætti það að setjast niður og gera lista, forgangsraða og gera hlutina á sínum eigin forsendum.

„Jólin koma alltaf ár eftir ár. Þótt ég komist ekki í klippingu, vax eða neglur, þá skiptir það engu máli.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Ásgerði í heild sinni.


Tengdar fréttir

Fimm góð ráð til þess að draga úr jóla­stressi og kvíða hjá börnum

„Hátíðirnar eru rosalega skemmtilegur tími en hann getur líka verið rosalega annasamur. Þá er mjög vert að huga að því að streita og kvíði geta farið að einkenna börnin okkar,“ segir Ásgerður Guðmundsdóttir hjá Vinnuheilsu. Ásgerður var gestur Óskar Gunnars á FM957 þar sem hún fór yfir það hvernig draga mætti úr stressi og kvíða barna yfir hátíðirnar.








×