Neytendur

Köku­deig Evu Lauf­eyjar innkallað: „Gjör­sam­lega miður mín“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Eva Laufey og framkvæmdastjóri Kötlu eru miður sín vegna málsins.
Eva Laufey og framkvæmdastjóri Kötlu eru miður sín vegna málsins. Facebook/Katla

Katla hefur gefið út sölustöðvun og innköllun af markaði á smákökudeigi sem fyrirtækið framleiddi í samstarfi við Evu Laufey.  Um er að ræða tvær tegundir af kökudeigi sem notið hefur gríðarlegra vinsælda og seldist upp hjá framleiðanda. Fjölmargir hafa tjáð sig um deigið í nokkrum samfélagsmiðlahópum og sagt frá hræðilegri lykt sem gýs upp þegar það er tekið úr umbúðunum. Eva Laufey segist miður sín vegna málsins. 

Í Facebook hópnum Matartips skapaðist mikil umræða um málið í gær og þegar þetta er skrifað hafa yfir hundrað manns tjáð sig. Meirihluti þeirra lýsir svipaðri upplifun: vondri lykt sem minnir á ælulykt þegar umbúðirnar eru opnaðar.

Rannveig Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Kötlu staðfestir  í samtali við fréttastofu að fyrirtækinu hafi borist talsvert af kvörtunum vegna þessa. Hún ítrekar hversu leiðinlegt þeim finnist málið vera og segir að hverjum og einum sé svarað og boðið skaðabætur. Í tilkynningu sem Katla sendi frá sér rétt í þessu segir að „tekin hafi verið ákvörðun um að  innkalla Súkkulaðibitakökudeig Evu Laufeyjar og Rjómaostatopp Evu Laufeyjar vegna ólyktar af deigi."

Eva Laufey miður sín

Eva Laufey tjáði sig um málið á þræðinum á Matartips í gærkvöldi. Þar segist hún gjörsamlega miður sín.

„Þetta eru semsagt súkkulaðibitakökurnar og því miður hafa komið upp nokkur tilfelli. Aldrei á ævi minni myndi ég vilja koma ólykt inn á heimilin ykkar eða bjóða upp á ónýtar kökur eða deig. Þetta er grautfúlt!“ Þá segir Eva að Katla sé að taka á málinu og unnið sé að því að finna ástæðuna.

Kökudeigin sem um ræðir eru tvenns konar, súkkulaðibitakökur og rjómaostatoppar.

25 þúsund deig seld

Kökudeigin sem um ræðir eru tvenns konar, súkkulaðibitakökur og rjómaostatoppar. Hvort tveggja hefur notið gríðarlegra vinsælda og þann 11. desember síðastliðin birti Eva Laufey færslu þar sem hún þakkaði frábærar viðtökur við kökudeiginu. Hún sagði frá því að 25 þúsund kökudeig hefðu verið framleidd og væru nú uppseld hjá framleiðanda. Þá yrði ekki framleitt meira fyrir jól.

Uppfært klukkan 12:27: 

Eva Laufey hefur tjáð sig á Facebook-síðu sinni um málið.

„Það er bara alls ekki alltaf gleði og gaman, þannig er það nú bara,“ segir Eva Laufey.

„Ég er búin að vera miður mín vegna þess að það hafa verið gölluð deig í umferð og það er alveg ótrúlega glatað að fólk hafi lent í því að baka ónýtar kökur. Katla er með málið í vinnslu og það er verið að vinna í því að finna út hvað gerðist og hvar í ferlinu. Vonandi skýrist það á næstu dögum. Ég bið þá sem fengu skemmt deig að senda tölvupóst á katla@katla.is og ykkur verður bætt þetta upp.“

Það sé hundfúlt að þetta skyldi koma upp eftir tveggja ára þróun sem hafi gengið svo vel.

„Er hægt að gráta yfir kökudeigi? Svarið er já Nú ætla ég hins vegar að hætta því og áfram gakk. Stutt í jólin, allir á fullu og ég vona að þið hafið það öll gott.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×