Innlent

Geimherinn vill rannsaka jónahvolfið frá Íslandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Merki geimhersins.
Merki geimhersins. Getty/Samuel Corum

Utanríkisráðuneytinu hafa verið kynntar hugmyndir um mælingar á jónahvolfinu frá Íslandi, af geimher Bandaríkjanna (e. United States Space Force). Fullrúar USSF hafa þegar komið hingað til lands í vettvangskönnun.

Frá þessu greinir Morgunblaðið og vitnar í skrifleg svör ráðuneytisins við fyrirspurn.

Tilgangur vettvangskönnunarinnar var að skoða mögulegar staðsetningar tækjabúnaðar sem nauðsynlegur er til rannsóknanna. Í svari ráðuneytisins kemur fram að búnaðurinn yrði starfræktur án fastrar viðveru liðsmanna geimhersins, nema vegna viðhalds og viðgerða.

Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins eru liðsmenn geimhersins 8.400 talsins og heyra undir bandaríska flugherinn. Meginverkefni hersins er að samhæfa, þjálfa og útbúa hermenn til að framkvæma aðgerðir í geimnum, sem auka getu annarra sveita Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í átökum.

Samkvæmt Vísindavefnum hefjast innri mörk jónahvolfsins í 60 km hæð en það nær 400 km hæð. Nafn þess er dregið af því að í hvolfinu slítur sólarorkan rafeindirnar af nitur- og súrefnisatómum og breytir þeim í jákvætt hlaðnar jónir.

„Jónahvolfið leikur afar mikilvægt hlutverk í samskiptum jarðarbúa þar sem það verkar eins og spegill sem endurvarpar útvarpssendingum og gerir okkur kleift að tala saman yfir langar vegalengdir. Í jónahvolfinu myndast einnig eitt stórkostlegasta fyrirbæri lofthjúpsins, norðurljósin,“ segir á Vísindavefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×