Neytendur

Fella á­kvörðun úr gildi og segja ekkert að kynningu Costco á endur­nýjun aðildar

Atli Ísleifsson skrifar
Costco áfrýjaði ákvörðun Neytendastofu frá í desember 2021 þar sem sagði að kynning Costco á endurnýjun aðildar væri villandi, ósanngjörn í garð neytenda og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra.
Costco áfrýjaði ákvörðun Neytendastofu frá í desember 2021 þar sem sagði að kynning Costco á endurnýjun aðildar væri villandi, ósanngjörn í garð neytenda og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra. Vísir/Hanna

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Neytendastofu sem kvað á um að kynning Costco á endurnýjun aðildar væri villandi.

Þetta kemur fram í úrskurði nefndarinnar frá því fyrr í mánuðinum. Costco hafði þar áfrýjað ákvörðun Neytendastofu frá í desember 2021 þar sem sagði að kynning Costco á endurnýjun aðildar væri villandi, ósanngjörn í garð neytenda og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra.

Neytendastofa tók málið til skoðunar eftir að ábending barst um að þegar viðskiptavinur endurnýjaði aðild sína hjá Costco þá hafi upphaf nýrrar aðildar miðað við þann tíma sem fyrri aðild hafi runnið út en ekki daginn sem aðild væri endurnýjuð. Í öllu kynningarefni hafi hins vegar komið fram að aðild sé tólf mánuðir en samkvæmt þessu gæti endurnýjuð aðild verið styttri.

Stofnunin taldi að hinn almenni neytandi myndi ekki gera sér grein fyrir umræddum fyrirvörum á gildistíma enda alla jafna talað um árlegt aðildargjald og tólf mánaða gildistíma og ekki væri gerð grein fyrir þessum skilmála í kynningarefni aðildarinnar.

Í úrskurði áfrýjunarnefnarinnar kom hins vegar fram að nefndin hafi talið skilmála endurnýjunar skýra um skilyrði hennar. Í hinni kærðu ákvörðun hafi heldur ekki verið vísað til kynningar- eða markaðsefnis þar sem gefið væri í skyn aðrir skilmálar.

„Þá kom fram í gögnum Costco til áfrýjunarnefndar að við endurnýjun gætu neytendur valið milli þess að endurnýja eldri aðildar þar sem endurnýjunardagsetning sé sú þegar aðild rann út eða að taka nýja aðild þar sem dagsetning miðast við nýjan samningsdag. Taldi nefndin því ekki sýnt fram á að viðskiptahættir Costco væru villandi eða í andstöðu við ákvæði laga um óréttmæta viðskiptahætti,“ segir á vef Neytendastofu um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×