Rúmlega 700 konur og börn þeirra sækja árlega í Kvennaathvarfið í leit að stuðningi, ráðgjöf, aðhlynningu og öruggu skjóli. Nú stendur yfir söfnun fyrir byggingu nýs, sérhannaðs athvarfs þar sem ætlunin er að sinna á einum stað þeirri fjölbreyttu þjónustu sem þarf að veita konum og börnum þeirra við losna undan ofbeldi. Söfnunin stendur yfir til mánaðamóta og verður sérstakur umfjöllunarþáttur um söfnunina á Stöð 2 í kvöld, fimmtudaginn 10. nóvember.
Ljóst er að bygging athvarfsins er kostnaðarsöm en sala á núverandi húsnæði Kvennaathvarfsins og það fjármagn sem safnast hefur nú þegar stendur aðeins undir helmingi kostnaðarins. Því leitar Kvennaathvarfið til einstaklinga og fyrirtækja, eins og N1, til þess að nýtt athvarf geti orðið að veruleika.
N1 lét fimm krónur af hverjum lítra af bensíni og díselolíu sem seldist þriðjudaginn 8. nóvember renna til Kvennaathvarfsins. Alls söfnuðust tvær milljónir króna sem N1 færði Kvennaathvarfinu í morgun.
Nánari upplýsingar um verkefnið og styrktarleiðir má nálgast á vefsíðu Kvennaathvarfsins.