Viðskipti innlent

Engar hóp­­upp­­­sagnir í októ­ber

Atli Ísleifsson skrifar
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. Vísir/Sigurjón

Engar tilkynningar bárust til Vinnumálastofnunar um hópuppsagnir í október.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vinnumálstofnunar.

Ein tilkynning barst Vinnumálastofnun um hópuppsögn í september þar sem 37 starfsmönnum var sagt upp störfum í sjávarútvegi. Kom þar fram að uppsagnirnar kæmu til framkvæmda um mánaðarmótin október/nóvember.

Engar hópuppsagnir voru tilkynntar til stofnunarinnar í júlí og ágúst, en í júní barst tilkynning um að 39 starfsmönnum hafi sagt upp störfum í opinberri stjórnsýslu vegna flutninga á starfsemi milli stofnana. Var um ræða flutning fasteignaskrár og fasteignamats frá Þjóðskrá til Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Með hópuppsögn er átt við uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum þar sem fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 21-99 í vinnu, minnst 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100-299 í vinnu eða minnst 30 starfsmenn þar sem venjulega eru 300 eða fleiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×