Handbolti

Viktor Gísli tæpur fyrir landsleikina

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson glímir við minni háttar meiðsli.
Viktor Gísli Hallgrímsson glímir við minni háttar meiðsli. Getty/Nikola Krstic

Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, er kominn í kapphlaup við tímann um að geta verið með íslenska landsliðinu þegar undankeppni EM hefst í næsta mánuði.

Ísland á fyrir höndum heimaleik við Ísrael 12. október og við Eistland á útivelli þremur dögum síðar.

Ekki er víst að Viktor, sem átti frábært Evrópumót í janúar, verði með Íslandi í leikjunum en hann greindi frá því í samtali við handbolta.is að hann ætti við meiðsli að stríða.

„Ég fékk slæma yfirspennu á olnbogann á æfingu. Ég verð þar af leiðandi að hvíla í tvær til þrjár vikur,“ sagði Viktor sem meiddist á æfingu með Nantes. Hann gekk til liðs við franska félagið í sumar frá GOG í Danmörku.

Samkvæmt frétt handbolta.is standa vonir til þess að Viktor fái grænt ljós til að spila landsleikina en hann hefur misst af síðustu tveimur leikjum Nantes.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.