Neytendur

Fá stjórn­valds­sekt vegna aug­lýsinga á CBD-snyrtivörum

Atli Ísleifsson skrifar
Það var Umhverfisstofnun til sendi ábendingu til Neytendastofu vegna málsins.
Það var Umhverfisstofnun til sendi ábendingu til Neytendastofu vegna málsins. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur sektað CBD ehf. um 100 þúsund krónur vegna fullyrðinga félagsins um virkni og notkunarmöguleika snyrtivara sem auglýstar voru á síðunni atomos.is. Er félagið talið hafa viðhaft villandi og óréttmæta viðskiptahætti og er brot félagsins talið hafa verið alvarlegt.

Á heimasíðu Neytendastofu segir að félagið hafi í auglýsingum notast við fullyrðingar um lyfjavirkni CBD, sem væri að finna í snyrtivörum félagins, að þær gætu verið gagnlegar gegn tilgreindum sjúkdómum og kvillum.

„Þó liggur fyrir að vörurnar eru ekki skráðar sem lyf og óheimilt er að auglýsa lyf sem ekki hefur hlotið markaðsleyfi eða leyfi til samhliða innflutnings hér á landi.

Með fullyrðingunum og kynningarefni, sem að mati Neytendastofu verði að telja að sé í beinum tengslum við sölu og auglýsinga á vörum félagsins, sé verið að fullyrða um eiginleika og hlutverk sem eiga almennt ekki við um snyrtivörur.“

Taldar raska fjárhagslegri hegðun neytenda

Fram kemur að Neytendastofa hafi metið fullyrðingarnar veita rangar upplýsingar um helstu einkenni þeirra vara sem CBD ehf. selur. Þá telur stofnunin að fullyrðingarnar séu til þess fallnar að valda því að hinn almenni neytandi, sem fullyrðingarnar beinast að, taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið og þannig vera líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda.

Það var Umhverfisstofnun til sendi ábending til Neytendastofu vegna málsins.

Neytendastofa taldi hæfileg upphæð stjórnvaldssektarinnar vera 100 þúsund krónur, og skal CBD ehf. greiða sektina í ríkissjóð innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×