Viðskipti erlent

Mesta hækkun stýri­vaxta í sögu Seðla­banka Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Christine Lagarde er seðlabankastjóri Evrópu.
Christine Lagarde er seðlabankastjóri Evrópu. AP

Seðlabanki Evrópu hefur ákveðið að hækka strýrivexti sína um 0,75 prósentustig, úr 0,5 í 1,25 prósent. Stýrivaxtahækkunin er sú mesta í sögu bankans frá árinu 1998.

Seðlabanki Evrópu greindi frá þessu um hádegisbil en ákveðið var að grípa til hækkunarinnar til að bregðast við þá verðbólgu sem ríkt hefur í álfunni síðustu misserin.

Seðlabankinn segist ennfremur spá því að hagvöxtur á evrusvæðinu verði einungis 0,9 prósent á næsta ári og útilokar ekki að gripið verði til frekari stýrivaxtahækkana á næstunni.

Verðbólga á evrusvæðinu mældist 9,1 prósent í ágústmánuði og segir bankinn eina helstu skýringuna vera hækkandi orku- og matvælaverð síðustu misserin.

Spá bankans gerir ráð fyrir að meðalverðbólga á árinu 2022 verði 8,1 prósent, sem er aukning frá fyrri spá sem gerði ráð fyrir 6,8 prósenta verðbólgu. Þá spáir bankinn verðbólgu upp á 5,5 prósent á næsta ári og svo 2,3 prósent árið 2024.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.