Erlent

Kín­verjar refsa 27 manns fyrir „frekar ljótar“ teikningar í kennslu­bók

Bjarki Sigurðsson skrifar
Tvær af þeim bókum sem innihéldu teikningarnar.
Tvær af þeim bókum sem innihéldu teikningarnar. CFOTO/Getty

Yfirvöld í Kína hafa refsað 27 manns fyrir að gefa út stærðfræðibók með „frekar ljótum“ teikningum. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í marga mánuði.

Niðurstöður rannsóknarhóps á vegum menntamálaráðuneytis Kína eru að bækurnar eru „ekki fallegar“, sumar teikninganna eru „frekar ljótar“ og „sýna ekki almennilega hamingjuna hjá kínverskum börnum“.

Bækurnar voru gefnar út fyrir tæpum tíu árum síðan en myndir úr bókinni urðu að athlægisefni í maí á þessu ári þegar kennari birti mynd af þeim á samfélagsmiðlum. Á myndunum voru drengir að grípa í pils hjá stelpum, drengir í buxum með bungu við klof þeirra og að minnsta kosti eitt barn með húðflúr á fótleggnum.

Upphaflega var talið að teikningarnar hafi verið gerðar af einhverjum frá Vesturlöndum til þess að gera Kínverjum grikk. En svo er ekki og í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir að 27 einstaklingum hafi verið refsað fyrir teikningarnar.

Meðal þeirra sem var refsað eru framkvæmdastjóri útgáfufélagsins sem gaf út bókina, ritstjóri bókarinnar og framkvæmdastjóri stærðfræðibókadeildar útgáfufélagsins. Útgáfufélagið mun aldrei aftur fá að gefa út kennslubók í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×