Atvinnulíf

Leið til að gjörsamlega elska starfið okkar

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Á það bara við annað fólk en þig að vinna við það sem þú ert rosalega góð/ur í og elskar? Svarið er Nei; við getum öll unnið að því að elska starfið okkar því að við búum öll yfir mörgum styrkleikum. Og getum svo sannarlega nýtt þessa styrkleika í okkar þágu.
Á það bara við annað fólk en þig að vinna við það sem þú ert rosalega góð/ur í og elskar? Svarið er Nei; við getum öll unnið að því að elska starfið okkar því að við búum öll yfir mörgum styrkleikum. Og getum svo sannarlega nýtt þessa styrkleika í okkar þágu. Vísir/Getty

Að starfa við það sem við elskum að gera og erum rosalega góð í hlýtur að vera draumur margra. Og þótt ætlunin sé hjá flestum að starfsferillinn verði akkúrat þannig, er ekki þar með sagt að við séum að ná þessu alveg 100%.

Að minnsta kosti segir metsöluhöfundurinn Gay Hendricks að svo sé ekki, en í vinsælustu bókinni hans The Big Leap (ísl. Stóra stökkið) skilgreinir hann það hvernig okkur er að ganga og líða í vinnunni í fjóra flokka.

Og það sem er merkilegt við þessa fjóra flokka að það er bara einn þeirra sem lýsir í rauninni þessu draumastarfi sem okkur langar öllum að vera í.

Hvaða lýsing á við starfið þitt?

Flokkana kallar Hendricks „svæði“ eða Zone á ensku en þeir eru:

#1. Zone of Incompetence: Ef þú ert í vinnu sem tilheyrir þessum flokki þýðir það að þú ert í starfi sem þú ert svona la, la í. 

Já, það eru hreinlega margir aðrir sem gætu sinnt þessari vinnu betur en þú.

Í þessum hópi er mikið af fólki sem er í vinnu sem það langar ekkert að vera í.

#2. Zone of Competence: Ef þú ert í starfi sem tilheyrir þessum flokki þýðir það að þú stendur þig bara alveg ágætlega í vinnunni.

En í raun ekkert meira en það. Strangt til tekið ertu bara eins og hver annar „starfsmaður á plani.“ Getur hvorki meira né minna en aðrir.

#3. Zone of Excellence: Hérna stendur þú þig frábærlega í starfi og ert algjör snillingur á þínu sviði. Býrð yfir sérþekkingu sem ekki margir aðrir búa yfir og yfirburðirnir þínir eru því augljósir.

Gallinn er bara sá að þótt sérþekkingin þín njóti sín vel í þessu starfi, er ekkert sem segir að þú sért að njóta starfsins eða upplifir mikla gleði. 

#4. Zone of Genius: Loksins erum við komin að draumastöðunni því þetta er flokkurinn sem allir vilja komast í.

Því hérna sameinast tvennt: Styrkleikarnir okkar og ástríðan.

Í vinnu upplifum við okkur í flæði þess sem við elskum að gera og erum rosalega góð í. 

Fyrir vikið líður okkur vel, erum glöð og ánægð og njótum okkar til hins ýtrasta.

Með nafngiftinni á þessum flokki er í raun verið að vísa í snilligáfuna okkar. Því öll erum við mjög góð í einhverju og það er enginn sem býr ekki yfir styrkleikum á einhverju sviði.

Í Atvinnulífinu fyrr í vikunni var rætt við Birtu Bjargardóttur sem einmitt leggur meðvitaða áherslu á að starfa í flæðinu „zone of Genius.“

Erum við hin þá svona óheppin?

Nú gætu einhverjir hafa lesið yfir lýsingarnar hér að ofan og fundið sjálfan sig í eitthvað af hinum flokkunum sem ekki eru eins eftirsóttir og „zone of Genius“ og velt því fyrir sér:

Er ég þá bara svona óheppin? Er það bara annað fólk sem er svo heppið að geta verið í draumastarfinu eða draumastöðunni; „zone of Genius.“

Nei heldur betur ekki því við getum öll unnið að því að komast þangað.

Fyrir það fyrsta segir höfundurinn Hendricks að hugarfarið skipti mestu máli. Enda er hann sálfræðingur að mennt, fékk sína gráðu í Standford.

Hendricks er mjög þekktur á sínu sviði og hefur í mörg ár þjálfað fólk á ólíkum sviðum til að ná því flæði að vinna sem best með styrkleikunum sínum og í ástræðunni sinni.

Til dæmis hefur hann þjálfað afreksfólk í íþróttum, rokkstjörnur og forstjóra á lista Forbes yfir stærstu fyrirtækin.

Því miður er erfitt að kenna með einni grein, hvernig okkur á að takast að komast í flæðið „zone of Genius“ og starfa þar. Til að gefa okkur smá inngjöf í hvað þarf til, er hins vegar hægt að nefna það sérstaklega að stóra hindrunin sem Hendricks segir að stoppi okkur felist ekki í neinu sem tengist starfinu okkar eða umhverfi, stétt eða stöðu.

Fyrst og fremst sé það óttinn innra með okkur sem er að hefta okkur. 

Við séum til dæmis allt of mörg sem líður eins og við „eigum það í raun ekki skilið að vera alltaf hamingjusöm.“

Eða hugsum of oft „þetta er nú allt of gott til að vera satt.“

Að sögn Hendricks er það meira að segja svo að oft þegar eitthvað frábært gerist hjá okkur er eins og einhver sjálfvirk hugsun fylgi með í kjölfarið til að búa okkur undir að þessi velsæld eða hamingja muni nú ekki vara of lengi.

Já, við hreinlega stoppum okkur sjálf.

Alltof sjaldan erum við að hugsa jákvætt um okkur sjálf. Til dæmis í hverju við erum mjög góð í og hvort það sé mögulega eitthvað sem myndi breytast ef við myndum nýta þessa styrkleika betur? Hér er einföld æfing fyrir byrjendur til að æfa sig í að hugsa vel um og efla styrkleikana sína.Vísir/Getty

Einföld æfing fyrir byrjendur

Gott veganesti inn í daginn er því að velta því fyrir okkur hvernig við hugsum og hvernig neikvæðar hugsanir hjá okkur sjálfum eru að skapa vantrú og þá um leið að koma í veg fyrir að við séum að nýta styrkleikana okkar til fulls.

Sumum líður jafnvel þannig að þeir búi ekki yfir neinum sérstökum styrkleikum. Sem er alls ekki rétt. Því það búa allir yfir einhverjum styrkleikum. Það er einfaldlega staðreynd.

Ef þér finnst þú ekki átta þig á því hverjir styrkleikarnir þínir eru, er til dæmis gott að byrja á því að skrifa niður lista með þeim eiginleikum sem þú telur þig búa yfir og eru jákvæðir. Óháð því hvort þú ert að nýta þessa styrkleika í starfinu þínu í dag eða ekki.

Hendricks mælir með því verkefni fyrir byrjendur að fólk skuldbindi sig í tíu mínútur á dag að hugsa um styrkleikana sína. Í hverju þeir felast, hvernig er hægt að nýta þá betur og svo framvegis.

Bæta síðan við fimm mínútum og skuldbinda sig í korter á dag í að hugsa um þessa styrkleika. Til dæmis með hugleiðslu eða skrifum.

Áður en við vitum af, fer þetta korter á dag að hafa smitáhrif og við erum orðin meðvitaðari um að nýta styrkleikana okkar betur og/eða að fara að hugsa betur um það hvernig við getum nýtt þá enn betur.

Þetta er strax aðferð sem hjálpar okkur að hætta að stoppa okkur sjálf svona oft eða mikið. Og þarf alls ekkert að vera neitt flókið.

Til dæmis gæti einn styrkleikinn okkar verið að við erum brosmild og með þægilega nærveru. Sem við meðvitað setjum okkur kannski markmið um að nýta enn betur í vinnunni alla daga. Og viti menn: Dagarnir verða strax skemmtilegri!


Tengdar fréttir

Mikilvægt fyrir okkur öll að gera stundum ekkert

Það kann að hljóma undarlega en það er mikilvægt fyrir okkur öll að gera stundum ekki neitt. Já, við erum að tala um að iðjuleysi er eitthvað sem gerir okkur gott. En hvernig getur það mögulega verið og hvaða árangur upplifum við af iðjuleysi?

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.