Innlent

Engar breytingar á gosinu sem bannað er að heim­sækja í dag

Árni Sæberg skrifar
Fólk verður að víða betra veðurs til að njóta fegurðar eldgossins í Meradölum.
Fólk verður að víða betra veðurs til að njóta fegurðar eldgossins í Meradölum. Vísir/Vilhelm

Eldgosið í Meradölum heldur uppteknum hætti og breytist ekkert milli daga að sögn náttúruvársérfræðings. Vonskuveður er við gosstöðvarnar og ákveðið var í gær að loka svæðinu fyrir almenningi.

„Það er svo sem ekkert nýtt að frétta af gosinu sýnist mér. Af vefmyndavélum er að sjá að það malli áfram en það er ekki búið að gera neinar nýjar mælingar,“ segir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við Vísi. Nýjustu mælingar á hraunflæði eldgossins í Meradölum eru frá 4. ágúst en þær eru gerðar úr lofti svo skyggni þarf að vera betra en hefur verið svo unnt sé að framkvæma þær.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað í gær að gosstöðvarnar í Meradölum yrðu lokaðar í dag. Lokunin hófst klukkan fimm í morgun og verður staðan endurmetin seinna í dag.

Vonskuveðri er spáð á svæðinu og gul viðvörun verður í gildi á milli 9 og 15. 

„Það eru átján metrar á sekúndu og þoka og rigning þarna. Það er ekkert veður til þess að vera á fæti í fjórtán kílómetra,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×