Innlent

Hval­fjarðar­göngum lokað tvisvar með stuttu milli­bili vegna um­ferðar­ó­happa

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Biðröð myndaðist við göngin í kjölfar þess að þeim var lokað tvisvar með stuttu millibili.
Biðröð myndaðist við göngin í kjölfar þess að þeim var lokað tvisvar með stuttu millibili. Vísir

Hvalfjarðargöngum var lokað tvisvar síðdegis með stuttu millibili vegna umferðaróhappa. Í fyrra skiptið voru þau lokuð í yfir klukkustund en í það seinna í 40 mínútur. Ökumenn fóru út úr bílum sínum til að kaupa ís af ísbílnum sem sat einnig fastur.

Vegagerðin birti tilkynningu klukkan 16:49 í dag um að Hvalfjarðagöngunum hefði verið lokað vegna umferðaróhapps og að lokunin gæti tekið um klukkutíma. Klukkan 18:01, rúmum 70 mínútum síðar, opnuðu göngin svo aftur.

Það varði þó stutt af því klukkan 18:50 birti Vegagerðin tilkynningu þess efnis að göngin væru aftur lokuð. Sú lokun stóð yfir í rúmar 40 mínútur og opnuðu göngin aftur upp úr hálf átta.

Sjónarvottur sem beið við göngin um sjöleytið sagðist hafa séð dráttarbíl og sjúkrabíl fara inn í göngin. Annar greindi frá því að fólk sem sat fast hefði farið út úr bílum sínum til að kaupa ís af ísbílnum sem sat einnig fastur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×