Neytendur

Eiga rétt á fullri endur­greiðslu og bótum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bæturnar sem fólk á rétt á þegar flugi þeirra er aflýst fer eftir þeim vegalengdum sem átti að fljúga með það.
Bæturnar sem fólk á rétt á þegar flugi þeirra er aflýst fer eftir þeim vegalengdum sem átti að fljúga með það. vísir/vilhelm

Tugir kvartana hafa borist Neyt­enda­­sam­tökunum síðustu daga eftir ó­­­venju­­mikið af af­­lýsingum á flugferðum. For­­maður sam­takanna segir flug­­fé­lögin oft sleppa því að upp­­­lýsa fólk um fullan rétt sinn á skaða­bótum sem sé mun meiri en flestir átti sig á.

Undan­farna daga hefur verið tals­vert um af­lýsingar á flugferðum hjá ís­lensku flug­fé­lögunum. Tveimur flugferðum PLAY var af­lýst með mjög skömmum fyrir­vara í dag og öðru fyrir helgi.

Neyt­enda­sam­tökunum hafa borist margar kvartanir vegna þessa - einnig vegna frestana hjá Icelandair og Niceair í síðustu viku.

„Og því miður er það þannig að flug­fé­lög hafa ekki alveg sagt rétt til um allan rétt sem far­þegar eiga við þessar að­stæður,“ segir Breki Karls­son, for­maður Neyt­enda­sam­takanna.

Ef flugi er af­lýst á fólk nefni­lega rétt á því að fá það endur­greitt eða að fá nýtt flug­far út, hvort heldur sem er með upp­runa­lega flug­fé­laginu eða að það kaupi flug með öðru flug­fé­lagi.

Við þetta bætast svo bætur, að því gefnu að af­lýsing flugferðarinnar skýrist ekki af ó­við­ráðan­legum að­stæðum eins og náttúru­ham­förum, ó­veðri eða verk­falli þriðja aðila.

„Ef flug er fellt niður með minna en 14 daga fyrir­vara á fólk líka rétt á því að fá skaða­bætur sem nema allt frá 250 evrum og upp í 600 evrur, eftir því hversu langt flugið er,“ segir Breki.

Breki Karls­son er for­maður Neyt­enda­sam­takanna.vísir/vilhelm

Fyrir allar flugferðir sem er af­lýst innan EES-svæðisins og eru lengri en 1.500 kíló­metrar á fólk til dæmis rétt á skaða­bótum upp á 400 evrur. Það gera um 55 þúsund ís­lenskar krónur. Þetta á við um báðar ferðir PLAY sem af­lýst var í dag.

Oft má svo bæta við þetta  gistingu, máltíðum og ýmsum kostnaði sem fólk þarf að taka á sig við þessar aðstæður. 

Rétturinn er mis­jafn eftir að­stæðum og vega­lengdum en hér á vef Neyt­enda­sam­takanna má finna svo­kallaðan flug­reikni þar sem far­þegar geta slegið inn þær að­stæður sem þær lenda í, bæði þegar flugferð er seinkað og af­lýst, og séð hver réttur þeirra er.

Berki telur fólk almennt ekki meðvitað um þetta. 

„Nei því miður. Fólk sem leitar til okkar og það hafa verið í dag bara nokkrir tugir. Það virðist ekki vera meðvitað um þetta,“ segir Breki.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×