Innlent

Telur tals­verðar líkur á því að meiri­hlutinn falli

Bjarki Sigurðsson skrifar
Birgir missti af Liverpool-leiknum í dag en ætlar ekki að missa af fyrstu tölum í Reykjavík.
Birgir missti af Liverpool-leiknum í dag en ætlar ekki að missa af fyrstu tölum í Reykjavík. Stöð 2

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis, telur það vera fimmtíu prósent líkur á að meirihlutinn falli í Reykjavík. Hann skilur ekki töf á fyrstu tölum í kjördæminu þegar talningin virðist ekki vera vandi annars staðar á landinu.

„Ég bíð spenntur eftir fyrstu tölum úr Reykjavík, ég vona það besta. Maður er í jafnmikilli óvissu og allir aðrir um hvað gerist en ég er svona bjartsýnn á að Sjálfstæðisflokkurinn sé að bæta við sig miðað við það sem hefur komið fram í könnunum núna síðustu daga,“ sagði Birgir þegar fréttastofa náði tali af honum.

Spenntur fyrir fyrstu tölum

Þrátt fyrir biðina eftir fyrstu tölum ætlar hann að vaka aðeins lengur.

„Nei, maður bíður nú svona eitthvað og sér hvað kemur í ljós. Þetta er auðvitað mitt kjördæmi og það er gaman að fylgjast með því. Ég átta mig nú reyndar ekki á því af hverju þessar nýju reglur eru að tefja fyrir í Reykjavík en ekki annars staðar, fyrir því kunna að vera einhverjar ástæður. Við höfum séð að talning annars staðar hefur gengið með venjulegum hætti þannig ég átta mig ekki á því hvað er svona sérstakt í Reykjavík.“

Aðspurður segir hann að hann telji það vera ágætis líkur á að meirihlutinn í borginni falli.

„Ég held að það séu talsverðar líkur á því, fimmtíu prósent líkur á því að minnsta kosti. Ég horfi fyrst og fremst á mitt fólk í Sjálfstæðisflokknum og hvernig því gengur og vona það besta.“

Missti af sigri Liverpool

Birgir er mikill Liverpool-aðdáandi en missti af bikarúrslitaleiknum sem fór fram í dag. Liverpool vann hann í vítaspyrnukeppni og gladdi það þingmanninn afar mikið.

„Það hafa ekki öll ár verið góð ár fyrir Liverpool-menn á undanförnum árum þannig að það sem er í rétta átt, maður styður það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×