Erlent

Fyrsta þel­dökka manneskjan til að sinna stöðu upp­lýsinga­full­trúa Hvíta hússins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Karine Jean-Pierre er bæði fyrstsa þeldökka og fyrsta opinberlega hinsegin manneskjan sem sinnir starfi upplýsingafulltrúa Hvíta hússins.
Karine Jean-Pierre er bæði fyrstsa þeldökka og fyrsta opinberlega hinsegin manneskjan sem sinnir starfi upplýsingafulltrúa Hvíta hússins. Getty/Alex Wong

Karine Jean-Pierre verður bæði fyrsta þeldökka manneskjan og fyrsta manneskjan sem er opinberlega hinsegin til þess að sinna stöðu upplýsingafulltrúa Hvíta hússins. Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti það í dag að Jean-Pierre muni taka við hlutverkinu í næstu viku.

Jean-Pierre hefur starfað á skrifstofu upplýsingafulltrúa Hvíta hússins síðan Biden tók við embætti en hún mun taka við stöðu upplýsingafulltrúa af Jen Psaki í lok næstu viku. Upplýsingafulltrúar Hvíta hússins mæta daglega til blaðamannafunda og fylgir starfinu því mikið álag.

Psaki sagði upp starfi sínu eftir að hafa fengið starf hjá fréttastofu MSNBC. Hún skrifar á Twitter að arftaki hennar sé „mögnuð kona“ með sterka siðferðiskennd.

Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins getur verið mjög áberandi fígúra í bandarískum stjórnmálum, enda í daglegum samskiptum við fjölmiðla og svarandi spurningum um það sem gengur á innan veggja Hvíta húsins. 

Þetta er fyrsta skiptið sem hörundsdökkur maður sinnir starfinu og auk þess í fyrsta sinn sem upplýsingafulltrúinn er opinberlega hinsegin. 

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins að Jean-Pierre hafi rúmlega tveggja áratuga reynslu af stjórnmálastarfi Demókrataflokksins en hún starfaði áður sem greinandi fyrir MSNBC. Hún fæddist á frönsku eyjunni Martinique í Karíbahafi en ólst upp í Queens í New York og starfaði innan ríkisstjórnar Baracks Obama. 

Áður en hún gekk til liðs við skrifstofu upplýsingafulltrúa Hvíta hússins var hún starfsmannastjóri Kamölu Harris, núverandi varaforseta, eftir að hún var útnefnd varaforsetaefni Bidens. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×