Erlent

Ríkis­stjórn Naftali Bennett missir þing­meiri­hlutann

Atli Ísleifsson skrifar
Idit Silman hefur verið lykilkona í þingflokki Yamina.
Idit Silman hefur verið lykilkona í þingflokki Yamina. Getty

Ríkisstjórn ísraelska forsætisráðherrans Naftali Bennett hefur misst meirihluta sinn á þingi eftir að einn lykilmanna innan stjórnarliðsins ákvað að segja skilið við stjórnarflokkinn Yamina vegna deilna um gerjuð matvæli og hefðir gyðinga.

Ákvörðun þingkonunnar Idit Silman þýðir að stjórn nýtur nú stuðnings sextíu þingmanna, jafnmargra þingmanna og eru í stjórnarandstöðu á þingi.

Ríkisstjórn Bennetts forsætisráðherra tók við völdum fyrir tæpu ári eftir fjórðu þingkosningarnar í landinu á tveimur árum. 

Stjórnin getur áfram starfað, en ákvörðun Silman þýðir að erfiðara gæti reynst að koma lagafrumvörpum í gegnum þingið. Silman hefur gegnt stöðu þingflokksformanns í Yamina, flokki Bennetts.

Guardian segir að ákvörðun Silmans hafi komið mjög á óvart og kunni að tengjast innanflokksdeilum um hvort að leyfa eigi matvælum sem innihalda ger á sjúkrahúsum landsins á meðan á páskahátíð gyðinga stendur. 

Hefðir gyðinga gera ráð fyrir að slík matvæli séu bönnuð á þessum tíma. Silman vill meina að hugmyndirnar ógni sjálfsmynd gyðinga og muni hún því vinna að því að mynda nýja hægristjórn í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×