Atvinnulíf

Óttinn við að kúka í vinnunni og góð ráð

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er ótrúlega mikill fjöldi fólks sem þorir ekki eða vill helst ekki þurfa að kúka í vinnunni. Þessi kvíði kallast á ensku bathroom anxiety og um hann hefur mikið verið ritað og rætt, meðal annars í sérstakri bók. Hjá fólki sem starfar skrifstofuvinnu sýna rannsóknir að allt að 51% starfsmanna líður illa með að þurfa að kúka í vinnunni. Kannast þú við þetta?
Það er ótrúlega mikill fjöldi fólks sem þorir ekki eða vill helst ekki þurfa að kúka í vinnunni. Þessi kvíði kallast á ensku bathroom anxiety og um hann hefur mikið verið ritað og rætt, meðal annars í sérstakri bók. Hjá fólki sem starfar skrifstofuvinnu sýna rannsóknir að allt að 51% starfsmanna líður illa með að þurfa að kúka í vinnunni. Kannast þú við þetta? Vísir/Getty

Niðurstöður rannsókna sýna að mjög stór hópur fólks vill ekki, þorir ekki eða forðast að kúka í vinnunni. Kannast þú við þetta?

Samkvæmt vefsíðunni MedicalNewToday hafa rannsóknir sýnt að klósettkvíði hrjáir 6,5-32% fólks á öllum aldri í heiminum.

Í könnun sem gerð var í nokkrum löndum hjá fólki sem vinnur skrifstofuvinnu, mældist þetta hlutfall enn hærra en þar sögðust 51% þátttakenda helst ekki vilja, eða líða illa með að kúka í vinnunni. Svarendur voru um fimm þúsund skrifstofustarfsmenn í Ástralíu, Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Malasíu.

Hvert svo sem hlutfallið er nákvæmlega, kannast flestir við það að ýmist vilja ekki kúka í vinnunni eða þekkja nákominn aðila sem vill ekki kúka í vinnunni.

En fyrst allir þurfa að kúka, hvers vegna þá þessi ótti?

Svo virðist sem kvíðinn stafi af áhyggjum af því að hljóðunum eða lyktinni fylgi mikil skömm.

Árið 2012 kom út bókin Psychology in the Bathroom en í þeirri bók er meðal annars fjallað um það hver áhrifin af því að þora ekki eða vilja ekki kúka í vinnunni geta verið.

En þau geta meðal annars falist í að draga úr afköstum og frammistöðu fólks. Því þegar að við höfum áhyggjur af einhverju eða hugsum mjög mikið um eitthvað (eins og það að þurfa að fara að kúka í vinnunni en þora því ekki), hefur það áhrif á það hvernig við stöndum okkur.

Það er því full ástæða til að rýna aðeins í þennan klósettkvíða og hvað er til ráða.

Heilsan

Á ensku er að jafnaði fjallað um þennan ótta við að kúka í vinnunni sem klósett kvíða, eða bathroom anxiety.

Í grein MedicalNewsToday má finna ýmsan fróðleik um það hvaða áhrif það getur haft á fólk ef það fer ekki á klósettið þegar það þarf að kúka, sjá nánar hér.

Þar er sem dæmi nefnt að fólk sem heldur í sér þegar það þarf að kúka vegna þess að það vill ekki kúka í vinnunni eða annars staðar en heima hjá sér, getur leitt til þess að fólk fer að glíma við hægðatregðu sem viðvarandi vandamáli.

Fyrir heilsuna er í alla staði gott fyrir líkamann að vera með góðar og reglulegar hægðir. 

Drekka nógu mikið af vatni, borða trefjaríkan mat, stunda hreyfingu og helst að kúka á sama tíma daglega ef hægt.

Fólk leggur ýmislegt á sig

Í umfjöllun FastCompany um klósettkvíðann er sagt frá því að fólk leiti ótrúlegustu leiða til að þykjast ekki kúka í vinnunni.

Sumir fara til dæmis á klósett sem er á annarri hæð en þeirra eigin.

Aðrir reyna að koma sér út úr húsi, fara á kaffihús eða verslunarmiðstöð og kúka frekar þar.

Þá eru enn aðrir sem þola ekki við lengur og hreinlega fara á klósettið að kúka en sitja þar síðan í ótta- og svitakasti, með áhyggjur af því að upp um þá muni komast.

Sumir reyna að draga úr þörfinni með breyttum venjum. Hætta til dæmis að fá sér kaffi á morgnana því hjá mörgum hefur það þau áhrif að líkurnar á að þurfa að kúka í vinnunni aukast.

Enn aðrir bíða þörfina af sér allan vinnudaginn en þurfa síðan í orðsins fyllstu merkingu að hlaupa á klósettið um leið og heim er komið. 

Kannast þú við eitthvað af ofangreindu? 

Góðu ráðin

Til að hjálpa okkur að sporna við þessum kvíða er til dæmis hægt að styðjast við eftirfarandi ráð.

Mundu að allir kúka.

Hugsaðu um heilsuna og það hversu góðar hægðir eru mikilvægar. Mundu sérstaklega vel eftir því að drekka mikið vatn.

Ekki halda í þér eða sleppa því að fara á klósettið þegar þú þarft að kúka. Það getur leitt af sér verri vandamál, til dæmis hægðatregðu sem er vond og sár og getur orðið að viðvarandi vítahring.

Ekki gera grín að lykt eða hljóðum annarra samstarfsfélaga sem voru að kúka. Því þannig stuðlar þú að vinnustaðamenningu sem einmitt flestir eru að hafa áhyggjur af: Að upplifa skömm og verða vandræðanleg.

Ef þér finnst sérstaklega óþægilegt að vinnufélagar sem koma inn á salernið á sama tíma, geti heyrt að þú sért að kúka, er gott ráð að setja nokkur blöð í klósettið áður en þú sest á setuna, það mildar hljóðin.

Ef þér finnst það sérstaklega vandræðalegt að vinnufélagar fatti að þú varst að kúka, bíddu þá með að fara út af klósettinu þar til aðrir eru farnir eða liðin smá stund.

Hugsaðu af skynsemi. Til dæmis er líklegt að öllum vinnufélögunum þínum sé hreinlega nákvæmlega sama að þú varst að kúka.

Hugsaðu með húmor. Að kúka í vinnunni þýðir til dæmis að þú ert á launum við að kúka!

Góð ráð fyrir vinnuveitendur

Þá er vinnuveitendum bent á að létta undir með fólki og milda þennan kvíða.

Til dæmis með því að vera alltaf með lyktareyðandi inni á salerni og huga að öðru umhverfi og hönnun. 

Á vinnustöðum þar sem klósettrými eru mjög stór og ekki með lokuð rými fyrir klósettin sjálf, er til dæmis mælt með því að fólk hangsi ekki þar inni.

Á kvennaklósettum getur það til dæmis verið ákveðið vandamál ef rýmið er stórt og samstarfskonur detta í spjall eða förðun, með þeim afleiðingum að sú kona sem mögulega er þá stundina að gera sitt í næði en líður óþægilega, er líkleg til að forðast enn meira að kúka í vinnunni.

Almennt finnst fólki líka auðveldara að kúka í vinnunni ef það er hægt að loka alveg að sér og ef klósettin eru ekki mjög fá.

Þá þarf vart að nefna mikilvægi þess að salerni starfsmanna séu hrein og þau reglulega þrifin.


Tengdar fréttir

Að leysa vind í vinnunni

Það getur enginn þóst aldrei hafa lent í því að hafa prumpað í vinnunni. Jafn neyðarlega og það kann að vera.

Heilbrigði hægðanna

Litur og áferð hægðanna geta sagt þér ansi margt um heilbrigði líkamans.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.