Innlent

Ísilagt Þingvallavatn og ólíklegt að kafað verði í dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Steingrímsson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi.
Rúnar Steingrímsson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi. Vísir/Egill

Ólíklegt er að hægt verði að ná einhverjum hinna fjögurra sem létust eftir flugslys upp úr Þingvallavatni í dag. Vatnið er ísilagt og hreyfir varla vind. Til stendur að reyna að brjóta upp ísinn í dag og vonandi verði þá hægt að ráðast í aðgerðir sem fyrst.

Rúnar Steingrímsson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi, segir stöðuna þannig að allt sé stopp varðandi kafanir.

„Það er nánast ís yfir öllu vatninu nema í víkinni þar sem við erum. Það er smá hreyfing af því þar rennur úr vatninu,“ segir Rúnar.

Ísinn sé þó ekki þykkur, kannski sentímetri og gerð verði tilraun til að koma hreyfingu á ísinn.

„Svo á að hlýna og þá batna kannski aðstæður.“

Von er á bátum sem geta siglt á þunnísilögðu vatninu. Ólíklegt sé að köfun geti hafist síðdegis, frekar á morgun.

„Við gerum eins vel og við getum. Gerum allt sem við getum til að koma hinum látnu upp.“

Um sextíu manns koma að aðgerðum í dag en um er að ræða kafara, björgunarsveitarfólk, lögreglu, rannsóknarnefnd samgönguslysa, slökkvilið og fólk sem sinnir sjúkraflutningum.

Mikill og dýr búnaður er nú á svæðinu sem Rúnar segir að sé vaktaður allan sólarhringinn. Hann áætlar nú að aðgerðum geti lokið á laugardagskvöld enda hefjist aðgerðir varla í dag.

Fyrst á að ná þeim látnu upp og í framhaldinu flaki flugvélarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×