Umræðan

Viðbrögð við hæfniþörf – hvað þarf til?

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir skrifar

Aukin óvissa, hraðari tæknibreytingar og flóknari samsetning efnahagslífs kalla á breyttar áherslur, ætli samfélög sér að auka samkeppnishæfni og bæta lífskjör. Samsetning verðmætasköpunar hefur tekið miklum breytingum undanfarna áratugi og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Skilningur á nauðsynlegri færniþróun mun því leika lykilhlutverk í að draga úr neikvæðum áhrifum örra tæknibreytinga á komandi misserum.

Þar kom meðal annars fram að Ísland væri eftirbátur Evrópuríkja þegar kemur að því að leggja mat á færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma.

Árið 2018 skilaði sérfræðihópur um færniþörf á vinnumarkaði tillögum um nauðsynleg skref í tengslum við þróun á færnispá. Þar kom meðal annars fram að Ísland væri eftirbátur Evrópuríkja þegar kemur að því að leggja mat á færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma. Sérfræðingahópurinn lagði til að tekið yrði upp spáferli um færniþróun á vinnumarkaði hér á landi og horft yrði til reynslu nágrannaþjóða í þeim efnum.

Ferlið sem við tók var nokkuð langt og strangt en nýverið virtist loks rofa til í þessum málum þegar Hagstofan gaf út færnispá til ársins 2035. Spáin er mikilvægt fyrsta skref en hana þarf að þróa frekar með nákvæmari greiningum. 

Eðlilegt væri að horfa til þeirra landa sem bestum árangri hafa náð á þessu sviði, svosem Finnlands, Svíþjóðar og Írlands. Fjölga þarf breytum og byggja inn í ferlið líklega þróun á samsetningu hagkerfsins og atvinnugreina til lengri tíma. Það er því miður ekki raunin.

Áskoranirnar eru kerfislægar en snúa einnig að inntaki náms

Áskoranirnar sem fylgja því að mæta hæfniþörf til framtíðar snúa bæði að kerfislægum þáttum og inntaki náms. Þær snúa að öllu menntakerfinu, skólunum okkar sem hlutmengi í því kerfi, en ekki síður öðrum menntaveitum og leiðum sem við notum til að afla þekkingar, staðfesta og meta.

Raunfærnimat, hvort heldur sem er á móti námsskrám eða eftir viðmiðum atvinnulífsins, skapar í þessu sambandi mikil tækifæri og er gott dæmi um kerfislæga þróun sem er mikilvæg.

Það er mikilvægt að móta með formlegum og samræmdum hætti þær vörður sem marka áfanga á menntaveginum, jafnvel þó ekki sé um formlega skólakerfið að ræða. Það er mikilvægt að við komum okkur saman um leið til að meta alla menntun og hæfni, í því felast verðmæti fyrir alla aðila.

Raunfærnimat, hvort heldur sem er á móti námsskrám eða eftir viðmiðum atvinnulífsins, skapar í þessu sambandi mikil tækifæri og er gott dæmi um kerfislæga þróun sem er mikilvæg. Með því er einstaklingum og atvinnurekendum gert kleift að meta með formlegum og viðurkenndum hætti þá hæfni og þekkingu sem einstaklingur hefur öðlast. 

Fjölmörg fleiri dæmi má taka til varðandi kerfislæga þætti sem mikilvægt er að breyta og sömuleiðis varðandi það með hvaða hætti er nauðsynlegt að þróa inntak námsins.

Áríðandi að móta hæfnistefnu sem byggir á heildrænni sýn

Hraðar breytingar á vinnumarkaði krefja okkur um snerpu í viðbrögðum og nýja hugsun. Hæfnistefnan þarf að byggja á heildrænni sýn og vel undirbyggðri færnispá. Að vinnunni þurfa að koma fulltrúar atvinnulífsins, menntakerfisins en ekki síst stjórnvöld. 

Sameiginlegur skilningur þarf að vera á gagnsemi hæfnistefnu, nauðsynlegum aðgerðum og þeirri skuldbindingu sem vegferðin felur í sér fyrir alla aðila. Markmiðið, að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar af hæfni í atvinnulífinu, þarf að vera í forgrunni í slíkri vinnu. Það leiðir til hæfari og virkari vinnumarkaðar sem er samfélaginu öllu til hagsbóta.

Höfundur er stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×