Fótbolti

Forseti FIFA segir að HM á tveggja ára fresti komi í veg fyrir að afrískir farendur drukkni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianni Infantino hefur verið forseti FIFA frá 2016.
Gianni Infantino hefur verið forseti FIFA frá 2016. getty/Harold Cunningham

Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að tengja dapurleg örlög afrískra farenda við fyrirætlanir FIFA um að fjölga heimsmeistaramótum karla.

Infantino vill ólmur halda HM á tveggja ára fresti, í stað fjögurra eins og alltaf hefur verið gert. Hann segir að þetta hjálpi ekki bara fótboltanum heldur geti haft áhrif á líf fólks í Afríku. 

„Við þurfum að gefa þeim tækifæri og reisn. Ekki með góðgerðarstarfsemi heldur að leyfa öllum heiminum að taka þátt. Við þurfum að gefa fólki í Afríku von svo það þurfi ekki að fara yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi en enda líklega á því að drukkna,“ sagði Infantino. Talið er að rúmlega 23 þúsund manns sé saknað eftir að hafa reynt að flýja yfir Miðjarðarhafið.

Eftir að ummælin fóru á flug og voru harðlega gagnrýnd leitaði Infantino í smiðju Georgs Bjarnfreðarsonar og sagði að um misskilning hefði verið að ræða og ummæli hans hafi verið tekin úr samhengi.

Meðal þeirra sem gagnrýndu ummæli Infantinos var Andrew Stroehlein, fjölmiðlafulltrúi mannréttindasamtakanna Human Rights Watch. „Samstarfsfélagar mínir ræða við flóttafólk víðs vegar að nánast á hverjum einasta degi. Þau minnast aldrei á heimsmeistaramót á tveggja ára fresti,“ sagði Stroehlein.

Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) og Knattspyrnusamband Suður-Ameríku (Comnebol) eru alfarið á móti því að fjölga heimsmeistaramótum. Knattspyrnusamband Afríku (Caf) er hins hlynnt þeim hugmyndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×