Neytendur

„Það eru allir að boða hækkanir“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Búast má við að matvara muni hækka í verði á næstu vikum og mánuðum.
Búast má við að matvara muni hækka í verði á næstu vikum og mánuðum. Vísir/Vilhelm

Búast má við að verðhækkanir á næstu vikum muni svipa til þeirra sem sáust eftir hrun, að sögn framkvæmdastjóra Bónus. Hins vegar sé staðan í dag sú að bæði innlendir og erlendir aðilar hafi boðað hækkanir en að í hruninu hafi það nær eingöngu átt við um innfluttar vörur. Hann segir allt gert til þess að milda hækkanirnar eins og hægt er.

Verðhækkanir hafa verið viðbúnar í nokkurn tíma enda hefur heimsfaraldurinn leitt af sér vöruskort, hærra hrávöruverð, hnökra í framleiðslu og aukinn flutningskostnað, svo dæmi séu tekin.

„Ég man í hruninu að þá lentum við í svipaðri stöðu. Þá hrundi gengið og innflutningurinn tvöfaldaðist í verði, en það sem bjargaði okkur þá voru íslensku framleiðsluvörurnar sem tóku nánast engum hækkunum, eða hækkuðu miklu, miklu minna á þeim tíma. En staðan núna er bara þannig að það eru allir að boða hækkanir, líka íslenskir framleiðendur,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.

Stærstu heildsalar landsins hafa lýst því að viðlíka hækkanir hafi varla sést. Guðmundur segir að þar af leiðandi sé búið að kaupa mikið inn áður en verð hækki enn meira.

„Það sem við höfum verið að gera síðustu mánuði er að kaupa mikið inn og halda í okkur eins og við mögulega getum. Það er í rauninni okkar hlutverk að reyna að streitast á móti eins og við mögulega getum og við gerum það með öllum ráðum, og eitt af því er að tryggja sér birgðir á eldri verðum.“

Erfitt sé að segja til um hverjar hækkanirnar verði, en aðspurður telur hann að einhver dæmi séu um að ákveðnar vörur hækki um meira en tíu prósent, til dæmis kaffi.

„Neytendur eiga alltaf eitt öflugt vopn upp í erminni og það er að sniðganga þær vörur og þá þjónustu sem fólki finnst hafa hækkað óeðlilega mikið. Og ég trúi því og treysti að í slíku ástandi að þá sjái sér einhverjir tækifæri til þess að gera betur en það sem fyrir er og komi þá inn með vörur eða lækki verð til þess að mæta því.“


Tengdar fréttir

Hvetur fyrirtæki til að hagræða frekar en að grípa til hækkana

ASÍ gefur lítið fyrir áhyggjur stórfyrirtækja um yfirvofandi verðhækkanir, enda séu þau sannarlega ekki á flæðiskeri stödd, og geti vel hagrætt fremur en að velta hækkunum út í verðlagið. Heildsölur og stærri fyrirtæki hafa lýst því yfir að hækkanir muni dynja yfir á næstu vikum.

Heildsölur hafa ekki séð viðlíka hækkanir á einu bretti

Stærstu heildsölur landsins hafa ekki séð á eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×