Umfjöllun: Ísland - Holland 29-28 | Sluppu með skrekkinn gegn strákunum hans Erlings

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum á Hollandi.
Íslensku leikmennirnir fagna sigrinum á Hollandi. epa/Tamas Kovacs

Ísland vann Holland, 29-28, í öðrum leik sínum í B-riðli Evrópumóts karla í handbolta í kvöld. Íslendingar eru því með fjögur stig, fullt hús stiga, á meðan Hollendingarnir hans Erlings Richardssonar eru með tvö stig.

Sigurinn var torsóttur en íslenska liðið gerði sér erfitt fyrir með slæmum kafla eftir að hafa náð fimm marka forskoti. En á lokakaflanum náðu okkar menn áttum og lönduðu sigrinum þótt ekkert hafi mátt út af bregða.

Þrátt fyrir tvo sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu er Ísland ekki enn komið í milliriðla. Íslensku strákarnir eru hins vegar algjörlega með örlögin í sínum höndum og með sigri á heimaliði Ungverjalands á þriðjudaginn fer Ísland með tvö stig í milliriðla.

Sigvaldi Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu annan leikinn í röð og skoraði átta mörk. Hann hefur samtals skorað þrettán mörk úr aðeins sautján skotum á EM. Aron Pálmarsson skoraði sex mörk og Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon sitt hvor fjögur mörkin. Sá síðarnefndi gaf einnig sex stoðsendingar. Björgvin Páll Gústavsson varði átta skot (29 prósent) en Viktori Gísla Hallgrímssyni tókst ekki að verja skot þann tíma sem hann var inni á.

Kay Smits héldu engin bönd eins og gegn Ungverjalandi og skoraði þrettán mörk úr aðeins sextán skotum fyrir Holland sem hefur komið liða mest á óvart á EM. Dani Baijens skoraði sex mörk.

Allt öðruvísi leikur en síðast

Fyrri hálfleikurinn var gríðarlega jafn og aldrei munaði meiru en tveimur mörkum á liðunum. Yfirbragð leiksins var allt annað en gegn Portúgal á föstudaginn. Á meðan Portúgalar spiluðu á hraða snigilsins keyrðu Hollendingar við hvert einasta tækifæri og bættu enn frekar í eftir því sem leið á leikinn. Þeir skoruðu ekki mörg klassísk hraðaupphlaupsmörk en fjölda marka eftir hraða miðju, sérstaklega í seinni hálfleik.

Kay Smits skoraði að vild, alls þrettán mörk.epa/Tamas Kovacs

Björgvin Páll byrjaði leikinn gríðarlega vel og varði fjögur af fyrstu fimm skotunum sem hann fékk á sig. Hann varði sex skot í fyrri hálfleik, eða 33 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Á meðan vörðu markverðir Hollands aðeins eitt skot í fyrri hálfleik.

Skotnýting Íslands í fyrri hálfleik var frábær, 79 prósent, en sjö tapaðir boltar reyndust dýrir. Til samanburðar tapaði Ísland boltanum átta sinnum í öllum leiknum gegn Portúgal. Þá fengu Íslendingar fjórar brottvísanir í fyrri hálfleik, þar af Ómar Ingi tvær snemma leiks. Viggó Kristjánsson leysti hann af hólmi og stóð fyrir sínu.

Hollenska útispilararnir eru mjög lágvaxnir og treysta mikið á gegnumbrot. Hollendingar skoruðu til að mynda ekki mark utan af velli í fyrri hálfleik. Þeir Luc Steins og Smits reyndust okkar mönnum erfiðir enda var þeim svolítið boðið upp í dans með að spila vörnina jafn framarlega og Ísland gerði. Vörnin hélt þó nógu vel til að landa sigri.

Sigvaldi engum líkur

Smits kom Hollandi yfir úr vítakasti, 9-10, en Ísland svaraði með þremur mörkum í röð og náði tveggja marka forskoti, 12-10. Sami munur var á liðunum í hálfleik, 15-13. Sigvaldi skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks en hann skoraði fjögur mörk í honum úr jafn mörgum skotum. Á meðan fékk Bjarki Már Elísson ekki úr neinu að moða í vinstra horninu. Hann skoraði úr eina færinu sem hann fékk í leiknum.

Elliði Snær Viðarsson sækir að hollensku vörninni.EPA-EFE/Tamas Kovacs

Ísland byrjaði með boltann í seinni hálfleik. Aron skoraði fyrsta mark hans og kom Íslendingum þremur mörkum yfir í fyrsta sinn, 16-13. Ísland bætti jafnt og þétt í og náði mest fimm marka forskoti. Sóknarleikurinn gekk geysilega vel á þessum kafla og eftir of marga tapaða bolta í fyrri hálfleik tapaði Ísland boltanum aðeins þrisvar sinnum í seinni hálfleik.

Kaflaskil með breyttri vörn

Þrátt fyrir erfiða stöðu gáfust Hollendingar ekkert upp. Erlingur skipti yfir í 5-1 vörn sem sló sóknarvopnin úr höndum Íslendinga. Okkar menn hikstuðu aðeins þegar Portúgalir fóru framar í leiknum á föstudaginn en voru fljótir að aðlaga sig. Því var ekki að skipta í kvöld.

Erlingur Richardsson á enn góða möguleika á að fara með Holland í milliriðla á EM.epa/Tamas Kovacs

 Á sama tíma stigu Hollendingar bensíngjöfina í botn og nýttu sér það að Íslendingar skiptu jafnan tveimur mönnum milli varnar og sóknar. Holland sótti á og Samir Benganem jafnaði í 24-24 þegar átta mínútur voru eftir.

Bjargvætturinn Janus

Eftir mikil sóknarvandræði brá Guðmundur Guðmundsson á það ráð að setja Janus Daða Smárason inn í sóknina. Og það reyndist þjóðráð. Betri bragur komst á sóknarleikinn með innkomu Janusar, hann gaf þrjár stoðsendingar og dró okkar menn að landi.

Aron skoraði einnig tvö mikilvæg mörk í röð en fékk tveggja mínútna brottvísun í stöðunni 26-25. Smits jafnaði úr víti en Sigvaldi skoraði næstu tvö mörk. Annað þeirra með frábærum snúningi eftir sendingu Janusar.

Janus Daði Smárason átti frábæra innkomu.epa/Tamas Kovacs

Smits svaraði en Elliði Snær Viðarsson kom Íslandi aftur tveimur mörkum yfir, 29-27. Sigvaldi gat aukið muninn í þrjú mörk en Bart Ravensbergen varði skot hans. Smits minnkaði muninn í 29-28 með sínu þrettánda marki, Aron skaut í stöngina og Janus fékk brottvísun.

Sem betur fer tapaði Holland boltanum og Ísland fékk boltann þegar um hálf mínúta var eftir. Sóknin var heldur ráðleysisleg en Íslendingar náðu að halda boltanum út leiktímann og landa sigrinum, 29-28.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira