Umfjöllun: Portúgal - Ísland 24-28 | Hófu EM af fítonskrafti

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Íslendingar fagna sigrinum magnaða í kvöld.
Íslendingar fagna sigrinum magnaða í kvöld. Getty/Sanjin Strukic

Íslenska karlalandsliðið í handbolta byrjaði Evrópumótið með besta mögulega hætti í Búdapest í kvöld þegar liðið vann sannfærandi sigur á Portúgal, 28-24.

Ísland var einnig fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14-10, og hélt áfram að spila vel á báðum endum vallarins í seinni hálfleik þar sem Portúgal tókst aldrei að saxa á forskotið af alvöru.

Næsti leikur Íslands er á sunnudagskvöld þegar liðið mætir funheitum lærisveinum Erlings Richardssonar í hollenska landsliðinu, sem vann merkasta sigurinn í sinni sögu í gærkvöld með því að skella Ungverjum. Miðað við frammistöðu Hollands í þeim leik verður það ekki mikið auðveldara verkefni en í kvöld.

Íslenska liðið fékk flottan stuðning úr stúkunni í hinni glæsilegu keppnishöll Ungverja.Getty/Sanjin Strukic

Sigurinn gegn Portúgal, og fjögurra marka munurinn, gæti reynst afar dýrmætt veganesti í baráttunni um að verða annað tveggja liða sem komast áfram í milliriðla.

Sannfærandi á báðum endum

Það tók Ísland reyndar rúmar fimm mínútur að skora sitt fyrsta mark á mótinu en fyrirliðinn Aron Pálmarsson sá að sjálfsögðu um það.

Aron skoraði fyrstu tvö mörkin en íþróttamaður ársins 2021, Ómar Ingi Magnússon, sýndi jafnframt strax það frumkvæði sem ætlast er til af honum á mótinu og galopnaði til að mynda vörn Portúgals þegar Aron sat af sér brottvísun fyrir litlar sakir.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var allt of snöggur fyrir varnarmenn Portúgals.EPA-EFE/Tamas Kovacs

Íslenska vörnin var feykilega öflug frá byrjun og helst að Portúgölum tækist að skapa sér færi þegar þeir voru manni fleiri.

Liðin skiptust á að hafa forystuna til að byrja með og staðan var jöfn eftir tæplega tuttugu mínútna leik en þá varði Björgvin Páll Gústavsson tvisvar vel, og Ísland komst í 10-7.

Kollegi Björgvins, Gustavo Capdeville, kom í veg fyrir að þessi öfluga vörn íslenska liðsins og flottur sóknarleikur skilaði sér strax í góðu forskoti, en leikur Íslands heilt yfir gaf afar góð fyrirheit.

Í góðum málum þrátt fyrir brottvísanir

Það var helst að óþarfa brottvísanir torvelduðu Íslandi verkið en liðið fékk fjórar slíkar í fyrri hálfleiknum, vegna baráttu við línutröll Portúgala. Þar af fékk Arnar Freyr Arnarsson tvær þrátt fyrir að Ýmir Örn Gíslason og Elvar Örn Jónsson hæfu leikinn í miðri vörninni.

En Portúgalar fengu einnig sínar brottvísanir, í vandræðum með að stöðva lágvaxna og snögga sóknarmenn Íslands, og manni fleiri fengu Íslendingar draumaendi á fyrri hálfleik með mörkum Sigvalda Guðjónssonar og Elvars á lokamínútunni. Staðan var þar með 14-10 og Ísland í góðum málum.

„Óstýrilátir krakkar“ sem gera ekki mistök

Aron jók muninn í fimm mörk með sínu fjórða marki í byrjun seinni hálfleiks. Aron skilaði sínu þegar þess þurfti, með marki hér og gullsendingu þar, á meðan að Ómar Ingi og Gísli Þorgeir Kristjánsson sérstaklega sprengdu sífellt upp vörn Portúgala. Gísli minnti á óstýrilátan krakka að hlaupa undan of þungum foreldrum sínum. Þetta sóknartríó gerir varla mistök og í því fólst mikill munur á liðunum í kvöld.

Múrinn sem íslenska liðið myndaði í varnarleiknum fór sömuleiðis augljóslega í taugarnar á Portúgölum og þjálfari þeirra, Paulo Pereira, gerði verkefni þeirra enn erfiðara með því að fá gult spjald fyrir mótmæli og fórna þannig einni sókn.

Ísland keyrði fram af krafti á þessum tíma og nýtti sér vonleysi Portúgala, og tvö snögg mörk frá Gísla og Elvari komu liðinu í 20-14 þegar tuttugu mínútur voru eftir. Pereira tók þá leikhlé og ákvað að reyna að bæta við sóknarmanni, líkt og í fyrri hálfleik, með því að taka markvörðinn af velli.

Portúgal minnkaði muninn í fjögur mörk en þá sögðu Íslendingar stopp og hvort sem það er að þakka meiri reynslu eða einfaldlega gæðum, þá bar ekki á neinu óöryggi, fáti eða stressi á þessum tímapunkti og Ísland jók muninn á ný.

Guðmundur Guðmundsson dreifði álaginu ágætlega á milli manna og Viggó Kristjánsson skoraði tvö mörk úr tveimur skotum þegar hann kom Íslandi í 25-19 tæpum tíu mínútum fyrir leikslok. Viktor Gísli Hallgrímsson leysti svo Björgvin Pál af hólmi þegar leið á seinni hálfleik og átti nokkrar prýðisgóðar markvörslur sem slökktu í vonum Portúgala um að hleypa spennu í leikinn.

Vissulega hefði verið enn betra að halda sex marka forskoti út leikinn en fjögurra marka sigur gegn því liði riðilsins sem kom úr efsta styrkleikaflokki er um það bil fullkomin byrjun á mótinu. Móti sem miðað við þessa byrjun gæti markað endurkomu Íslands í hóp átta bestu þjóða Evrópu.

Frekari umfjöllun, viðtöl, einkunnagjöf, tölfræðiyfirlit og fleira tengt leiknum kemur inn hér á Vísi í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.