Innlent

Einstakt listaverkasafn afhent Listasafni Íslands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Listasafn Íslands tekur við listaverkasafninu að ósk Listaverkasjóðs Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur.
Listasafn Íslands tekur við listaverkasafninu að ósk Listaverkasjóðs Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Stjórnarráðið

Listasafn Íslands fékk í dag afhent einstakt listaverkasafn Ingibjargar Guðmundsdóttur og Þorvaldar Guðmundssonar sem kenndur var við Síld og fisk. Listaverkasafnið inniheldur margar af perlum íslenskrar myndlistar.

Listaverkasafnið er eign Listaverkasjóðs Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur sem stofnaður var af Ingibjörgu, ekkju Þorvaldar og börnum þeirra, Geirlaugu, Skúla og Katrínu um síðustu aldamót. Að ósk stjórnar sjóðsins og erfingja þeirra hjóna, er Listasafni Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneyti falin stjórn sjóðsins.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að listaverkasafnið skarti perlum íslenskrar listasögu, ekki síst þeirra listamanna sem teljast til frumherja íslenskrar málaralistar. Safnið inniheldur drjúgan hluta þeirra myndlistarmanna sem störfuðu á fyrstu áratugum síðustu aldar og kynslóðirnar samtíða þeim hjónum.

Safnið var afhent í dag.Stjórnarráðið

Fjöldi verka listaverkasafnsins er um 1.400 talsins, meðal annars málverk, teikningar, grafík, skúlptúrar og lágmyndir og skipar landslagsmálverkið verðugan sess í safninu með einstökum verkum frumherja íslenskrar myndlistar svo sem. Ásgríms Jónssonar, Jóhannesar Kjarval, Jóns Stefánssonar, Kristínar Jónsdóttur og Gunnlaugs Scheving svo dæmi séu tekin.

Auk þeirra er fjöldi verka listamanna sem komu fram á millistríðsárunum og um miðja síðustu öld og voru virkir allt fram yfir síðustu aldamót, svo sem eftir Eirík Smith, Louisu Matthíasdóttur, Kristján Davíðsson, Tryggva Ólafsson og Veturliða Gunnarsson svo fáeinir séu nefndir.

„Listasafn Íslands mun á næstu misserum skrá þetta einstaka sérsafn og gera það aðgengilegt til sýninga og með stafrænum hætti. Stefnt er að stórri bókaútgáfu innan fárra ára um það merka og myndarlega framlag til íslenskrar listasögu sem þau hjónin Ingibjörg og Þorvaldur stóðu að,“ segir í tilkynningunni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×