Umræðan

2021: Slæmt ár fyrir frjálslyndi og frelsi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar

Það er lítið gagn í því að líta til framtíðar án þess að taka mið af reynslu hins liðna.

Reynslan af árinu 2021 kallar á að við veltum fyrir okkur hvað betur megi fara á komandi ári.

Liðið ár markaðist umfram annað af bakslagi á sviði frjálslyndis og frelsis. Með því er ég ekki að vísa til sóttvarnarráðstafana vegna heimsfaraldursins, ekki beint. Faraldurinn og aðgerðir stjórnvalda vegna hans hafa hins vegar haft áhrif á öðrum sviðum. Þau áhrif geta orðið enn skaðlegri en faraldurinn ef fram heldur sem horfir.

Eftir mörg ár af vaxandi rétttrúnaði vonuðu margir að faraldurinn, eins skaðlegur og hann er, myndi þó minna okkur á það sem mestu máli skiptir í samfélagi. Þar á meðal samstöðu um ákveðin grundvallargildi og sameiginlegar hefðir en um leið mikilvægi skoðanafrelsis, gagnrýni og rökræðu um hvernig megi bæta samfélagið.

Hvort tveggja hefur beðið mikið tjón á liðnum árum en þó sérstaklega á nýliðnu ári. Rétttrúnaðarfylkingar (ybbarnir) hafa leitast við að brjóta niður grunnstoðir vestrænna samfélaga. Í skjóli faraldursins hefur þeim orðið meira ágengt en nokkru sinni áður.

Það virðist vera regla frekar en undantekning að stjórnkerfið útvíkki þau völd sem það hefur fengið í krafti tímabundins eða sérstaks ástands.

Um leið hefur faraldurinn aukið vald stjórnkerfisins yfir daglegu lífi fólks. Ég læt vera að velta fyrir mér hvaða ráðstafanir voru réttlætanlegar að hvaða marki og hvenær. Það er augljóst að þegar þjóð stendur frammi fyrir ógn á borð við veirufaraldurinn kallar það á viðbrögð yfirvalda til að verja almenning. Eftir stendur þó spurningin um langtímaáhrifin. Ekki langtímaáhrif veirunnar heldur það hvernig stjórnkerfið fer með aukin völd. Kerfið er iðulega tregt til að gefa eftir völd sem það hefur tekið sér. Það á við hvort sem um er að ræða „tímabundin“ höft eða skatta til að mæta ákveðnum aðstæðum eða aukið vald yfir daglegu lífi fólks.

Mörgum Íslendingum er eflaust í fersku minni þegar bresk stjórnvöld nýttu hryðjuverkalög gegn Íslendingum í miðju bankahruninu. Það virðist vera regla frekar en undantekning að stjórnkerfið útvíkki þau völd sem það hefur fengið í krafti tímabundins eða sérstaks ástands. Í sögunni má jafnvel finna dæmi um að ráðandi öfl hafi búið til neyðarástand til að réttlæta valdsækni sína.

Allt er að vanda gert með vísan til nýjasta „sannleikans“ og þess að skipta fólki í hópa og réttlæta svo brotthvarf frá grundvallarreglum með því að verið sé að verja einn hóp fyrir öðrum.

Árið 2021 minnti okkur þó á að lýðræðislegt vald er ekki vandamálið. Þvert á móti, lýðræðislegt vald borgaranna hefur farið minnkandi. Flestir stjórnmálaflokkar virðast vera við það að renna saman í einn. Nokkur ólík vörumerki en sama innihald. Kosningar og ríkisstjórnarskipti hafa takmörkuð áhrif því kerfið heldur áfram á sinni braut. Þar er handritið skrifað þótt skipt sé um leikara í hinum ýmsu hlutverkum stjórnmálanna.

Í samræmi við það þykjast margir vera eitthvað allt annað en þeir eru. Stjórnlyndustu flokkarnir, þeir sem vilja ganga lengst í að handstýra samfélaginu, eru líklegastir til að kalla sig „frjálslynda“. Ríkisgagnrýnendur skilgreina svo þá sem leitast við að viðhalda því sem vel hefur reynst og ræða raunverulegt innihald sem „poppúlista“. Allt er þetta orðið ískyggilega orwellskt. Við þær aðstæður reynist það líklega stjórnmálamönnum og flokkum best að láta lítið fyrir sér fara og fljóta með straumnum, þ.e. að vera valkostur sem þarf ekki að hugsa um.

Samhliða veikara lýðræðislegu valdi almennings eykst vald sjálfskipaðrar rétttrúnaðarreglu. Æðstu ybbarnir leggja línurnar um umræðuna (fjölmiðlar elta samfélagsmiðla frekar en öfugt) og fyrir vikið vex öfgum ásmegin.

Á árinu 2021 birtust ótvíræð merki um að mistekist hefði að læra af sögunni og því væri verið að endurtaka fyrri mistök og fórna um leið árangri liðinna ára.

Árið 2021 náðu öfgar samtímans nýjum hæðum. Öfgar af þeirri gerð sem enskumælandi fólk kallar „woke“. Þær innihalda þó öll helstu einkenni öfgaþróunar liðinna áratuga og alda. Allt er að vanda gert með vísan til nýjasta „sannleikans“ og þess að skipta fólki í hópa og réttlæta svo brotthvarf frá grundvallarreglum með því að verið sé að verja einn hóp fyrir öðrum. Fyrir vikið hafa allar grundvallarreglur vestrænna réttarríkja átt undir högg að sækja á liðnu ári. Jafnræði borgaranna, sakleysi uns sekt er sönnuð osfrv. Öllu er snúið á haus og tvískinnungsháttur einkennir alla stefnu ef stefnu skyldi kalla (en það er efni í aðra grein).

Árið 2021 markaðist af auknu valdi kerfisins, skertum áhrifum lýðræðis og framsókn hinnar nýju rétttrúnaðarreglu.

Á árinu 2021 birtust ótvíræð merki um að mistekist hefði að læra af sögunni og því væri verið að endurtaka fyrri mistök og fórna um leið árangri liðinna ára.

Við skulum vona að árið 2022 verði betra. Það gerist þó ekki af sjálfu sér. Við þurfum að standa vörð um þau grunngildi sem hafa reynst okkur best og verja raunverulegt frjálslyndi og frelsi.

Gleðilegt nýtt ár.

Höfundur er formaður Miðflokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.