Innherji

Sigurjón Sighvatsson: „Við höfum siglt inn í öld ímyndunaraflsins“

„Ég laðast ekki að verkefnum eingöngu vegna þess að í þeim felast viðskiptatækifæri. Þau þurfa að vera skapandi. Sköpunargleði er það sem keyrir mig áfram,“ segir Sigurjón Sighvatsson, sem á að baki langan feril í kvikmyndagerð og fyrirtækjarekstri af ýmsum toga.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Viðskiptaferil Sigurjón má rekja allt aftur til ársins 1975 þegar hann stofnaði upptökuverið Hljóðrita. VÍSIR/VILHELM

„Ég laðast ekki að verkefnum eingöngu vegna þess að í þeim felast viðskiptatækifæri. Þau þurfa að vera skapandi. Sköpunargleði er það sem keyrir mig áfram,“ segir Sigurjón Sighvatsson, sem á að baki langan feril í kvikmyndagerð og fyrirtækjarekstri af ýmsum toga.

Farsæld Sigurjóns á sviði kvikmyndagerðar er flestum kunnug. Framleiðslufyrirtæki á hans vegum, fyrst Propaganda Films, Lakeshore Entertainment og Palomar Pictures í Bandaríkjunum, og síðar Scanbox í Danmörku, hafa komið að framleiðslu fjölda kvikmynda og þáttaraða sem hafa notið mikillar hylli.

En á ferli sínum hefur Sigurjón tekið þátt í margvíslegri uppbyggingu á fyrirtækjum og vörumerkjum sem eiga fátt sammerkt með kvikmyndagerð.

Viðskiptaferil Sigurjóns má raunar rekja allt aftur til ársins 1975 þegar hann kom að stofnun fyrsta hljóðupptökuversins hér á landi, Hljóðrita í Hafnarfirði, sem er enn í rekstri.

„Á þessum tíma var ég í Brimkló og var að sjá um fjármál hljómsveitarinnar. Það lendir oft á bassaleikurunum að sjá um þau. Þá komu eldri félagar að máli við mig um opnun á stúdíói og við drifum í þessum. Það var nóg að gera, allir Íslendingar vildu gera plötu á þessum tíma,“ segir Sigurjón.

Sigurjón hélt út til Bandaríkjanna árið 1978 til að læra kvikmyndagerð en hann hafði áður lokið námi bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Þá var engin eiginleg kvikmyndagerð á Íslandi. Sama ár var Land og Synir framsýnd en hún er jafnan talin marka upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi.

Í Bandaríkjunum lauk Sigurjón námi í kvikmyndagerð við Háskóla Suður-Kalíforníu (USC) og síðar sérnámi í leikstjórn við Kvikmyndastofnun Bandaríkjanna (American Film Institute). Að náminu loknu byrjaði „höstlið“; lausavinna með skólafélögum sem leiddi síðan til stofnunar framleiðslufyrirtækisins Propaganda Films arið 1986.

„Propaganda byrjaði mjög smátt, við vorum þrír saman í lausavinnu og sameinuðumst nokkrum leikstjórum sem höfðu unnið með okkur. Um þetta leyti voru tónlistarmyndbönd að ryðja sér til rúms og við reyndum að nota þau sem aukavinnu þangað til stóru vinningarnir kæmu. Þetta var óþroskaður iðnaður, enginn sem tók sig alvarlega í kvikmyndageiranum vildi tengjast tónlistarmyndböndum.“

Sigurjón og samstarfsmenn hans voru á réttum stað á réttum tíma. Á fáeinum árum varð Propaganda eftirsóttur framleiðandi tónlistarmyndbanda – svo eftirsóttur að árið 1990 var nær þriðja hvert tónlistarmyndband í Bandaríkjunum framleitt af fyrirtækinu. 

„Við duttum inn á gullæð.“

Velta fyrirtækisins var 10 milljónir dollara á fyrsta starfsárinu og á fimm árum jókst hún upp í 100 milljónir dollara.

„Á sama tíma var auglýsingarbransinn að fara í gegnum kynslóðaskipti og var að leita að einhverju nýju og fersku. Við fengum stór verkefni sem vöktu mikla athygli. Það var meiri kvikmyndabragur yfir auglýsingunum okkar, enda komu leikstjórarnir sem við vorum að vinna með úr kvikmyndageiranum. Svo óx þetta og varð á fjórum fimm árum risafyrirtæki. Þegar það var sem stærst vorum við með 50 leikstjóra á okkar vegum.“

Árangur á sviði tónlistarmyndbanda og auglýsinga, ásamt fjármögnun frá alþjóða stórfyrirtækinu Polygram, gerði Propaganda kleift að hefja framleiðslu kvikmynda á borð við Wild at Heart og sjónvarpsþáttaraða á borð við Beveryl Hills 90210 og Twin Peaks. Polygram keypti síðan Propaganda Films í heild sinni árið 1995.

Voru þetta ekki stórar upphæðir?

„Þetta voru nokkur húsaverð. En þegar við seldum fyrirtækið ákváðum við að skipta þremur milljónum dollara með öllum sem höfðu unnið með okkur í fimm ár þannig að þeir fengju allir árslaun í bónus. Þetta er ein versta ákvörðun sem ég hef tekið vegna þess að öllum fannst að þeir hefðu átt að fá meira. Það er oft sagt að árangur sé margfeðra en ófarir séu munaðarlausar.“

Hluthafi í Joe Boxer

Það var árangur Propaganda Films á sviði auglýsingagerðar sem leiddi til þess að Sigurjón varð hluthafi í bandaríska undirfatamerkinu Joe Boxer.

„Stofnandi Joe Boxer hafði samband við okkur hjá Propaganda til þess að gera auglýsingar. Þá var Joe Boxer er ekki stórt fyrirtækið og hann hafði ekki efni á að borga okkur eitthvað af ráði. En ég ákvað að slá til, við framleiddum nokkrar auglýsingar fyrir hann og hann býður mér að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Svo þróaðist þetta þannig að ég keypti mig inn og eignaðist 10 prósent.“

VÍSIR/VILHELM

Sigurjón átti hlut í Joe Boxer um nokkurra ára skeið, eða þangað til fyrirtækið var selt í heild sinni árið 2001. 

„Þetta var ekkert þegar ég keypti mig inn en var einhvers virði þegar ég seldi. Við í stjórninni vorum reyndar ekki á því að stofnandinn, Nicholas Graham, ætti að selja. Þetta var orðið risafyrirtækið og eitt þekktasta undirfatamerki Bandaríkjanna.“

Fóru aðra leið með Domino's

Árið 1993 stóð Sigurjón að opnun fyrsta Domino's skyndibitastaðarins á Íslandi ásamt bræðrunum Sigurði Gísla og Jóni Pálmasyni, sem eru oft kenndir við Hagkaup, og Birgi Bieltvedt sem er einn af núverandi eigendum keðjunnar.

„Við fórum aðra leið við uppbyggingu rekstrarins en Domino's hafði farið í öðrum löndum vegna þess að aðstæðurnar hér á landi voru ekki þær sömu. Domino's-keðjan lagði áherslu á heimsendingarþjónustu og sparnað í yfirbyggingunni,“ 

VÍSIR/VILHELM

Erlendis voru Domino's staðir því oft í iðnaðarhverfum eða hliðargötum. 

„Við ákváðum hins vegar að koma þeim fyrir í verslunarkjörnum, hanna flott innirými og hvetja fólk til að sækja pizzurnar. Domino's-menn voru forviða á þessu, fannst þetta rosalegur lúxus, en með þessum hætti náðum við að verða stærsta pítsukeðjan á landinu,“ segir Sigurjón.

„Ég var þarna inni í fjögur eða fimm ár en þegar íslensku eigendurnir byrjuð að plana landvinninga á Norðurlöndum hugsaði ég að þetta væri nóg komið fyrir mig.“

Átök um sýn á fjölmiðla

Á svipuðum tíma, eða um miðjan tíunda áratuginn, kom Sigurjón inn í hluthafahóp félagsins sem hélt utan um rekstur Stöðvar 2 og fékk seinna nafnið Norðurljós. Þar logaði allt í deilum á milli minnihlutaeigenda annars vegar og Jóns Ólafssonar fjárfestis hins vegar.

„Ég skipti um lið og tók afstöðu með Jóni Ólafssyni sem mér fannst hafa mun meiri þekkingu og áhuga á fjölmiðlabransanum heldur en þeir sem ég fór inn með í upphafi. Það voru viðskiptamenn tengdir Sjálfstæðisflokknum sem höfðu meiri áhuga á að nota miðilinn til að halda sjónarmiðum sínum á lofti og hafa þannig áhrif á skoðanamyndun,“ segir Sigurjón. 

„Þetta snerist í grunninn um sýn á fjölmiðla. Ertu að reka fjölmiðlafyrirtæki til þess að skila hagnaði eða að nota það sem tól fyrir önnur markmið? Og er hagnaðurinn þá í öðru sæti?“

Sigurjón var hluthafi í Norðurljósum í tæpan áratug, eða þangað til fyrirtækið var selt til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í lok árs 2003.

Telurðu að þetta sé enn vandamál í íslenskri fjölmiðlun? Þ.e.a.s. að fyrirtækin séu ekki rekin til að skila hagnaði fyrst og fremst?

„Þetta er breyttur heimur, til dæmis hefur stór fjölmiðill verið sameinaður skráðu fjarskiptafyrirtæki. Hann er á markaði og þarf að skila hagnaði. Mér sýnist það vera til bóta,“ segir Sigurjón og á þar við miðla Sýnar. „Engum er greiði gerður þegar eigendur fjölmiðils reka hann með annað en hagnað í huga.“

Lítt hrifinn af arðgreiðslum

Á löngum og fjölbreyttum ferli hefur Sigurjón tileinkað sér nálgun á fyrirtækjarekstur sem einhverjir myndu kalla óhefðbundna.

„Ég hef aldrei haft trú á því að greiða mikinn arð út úr fyrirtækjum vegna þess að arðgreiðslur eru byggðar á því sem gerðist í fortíðinni. Oft er ekki tekið með í reikninginn hvað geti gerst í framtíðinni, hvort sem það eru skakkaföll eða ný tækifæri sem koma skyndilega í ljós. Ég kýs frekar að vera í framtíðinni,“ segir Sigurjón.

VÍSIR/VILHELM

Það hefur raunar heyrt til undantekninga, að sögn Sigurjóns, að arður hafi verið greiddur út úr þeim fyrirtækjum sem hann hefur komið að. Hagnaðinum er jafnan varið í frekari uppbyggingu.

Og að hans mati þarf að útvíkka skilninginn á hugtakinu „arður“.

„Í fyrirtækjarekstri almennt gætir misskilnings um arð. Arður er ekki einungis fjárhagslegur hagnaður eftir gott rekstrarár. Fyrirtækjarekstur getur einnig skilað menningarlegum eða samfélagslegum arði – þegar afurð þeirra eða sköpun hefur víðtæk áhrif á samfélagið. Kvikmyndagerð er gott dæmi um það. Og það eitt að byggja upp fyrirtæki sem hefur slík áhrif er ríkuleg umbun í sjálfu sér.“

Hvað er líkt með kvikmyndagerð og rekstri fyrirtækja í öðrum geirum?

„Það sem gerir kvikmyndina spennandi er að þú hefur svo afmarkaðan tíma til þess að framleiða myndina, kannski 6-8 vikur og hver dagur í Hollywood kostar um 300 þúsund dollara. Leikarar og annað starfslið hafa flestir aðrar skuldbindingar að tökum loknum þannig að ef þú missir út dag þá færðu hann ekki aftur. Það er þessi agi sem ég hef notað, fyrst ósjálfrátt og síðan sjálfrátt, þegar ég hef skipulagt önnur viðskipti á öðrum vettvangi,“ segir Sigurjón.

„Og það er annað athyglisvert við kvikmyndagerðina,“ bætir Sigurjón við. 

„Þú ert að kaupa vöru sem er ekki til. Kvikmyndahandrit er eins og teikning af húsi sem hefur ekki verið byggt. Ég er alltaf með hugann við að vernda fjárfestinguna, þannig að enginn stórskaðist ef illa fer, frekar en að veðja á gróðann. Ég fer ekki af stað með kvikmynd nema ég sé viss um að hún skili að minnsta kosti 80 prósentum af því sem í hana var lagt.“

Áhættan sem felst í kvikmyndagerð hefur virðist þannig hafa mótað varfærni í fari Sigurjóns. En þegar hann er spurður nánar út í þau gildi sem hann hefur haft að leiðarljósi á viðskiptaferli, einkum hvernig hann ber sig að við kaup á fyrirtækjum, kemur viss áræðni í ljós.

„Ef þú hefur skýra sýn þá skiptir engu máli á hvaða verði þú kaupir fyrirtækið.“

„Auðvitað er þetta fáránleg fullyrðing en það sem ég á við er að ef þú rekur það illa þá ferðu á hausinn hvort eð er.“

Í grunninn snýst þetta allt, hvort sem um ræðir fyrirtækjarekstur eða kvikmyndagerð, um sköpun.

„Við höfum siglt inn í öld ímyndunaraflsins,“ bætir Sigurjón við. „Allir hafa viðamikinn aðgang að upplýsingum en þeir sem hafa ímyndunarafl og sköpunargáfu ná hvað lengst. Sjáðu Davíð Helgason hjá Unity sem hafði gríðarlegan áhuga á sköpun tölvuleikja. Aðalatriðið var að gera það sem hann hafði gaman að.“

Umbreytingin á 66°Norður

Næsta fjárfesting Sigurjóns í fyrirtækjarekstri á Íslandi var árið 2005 þegar hann keypti íslenska fatamerkið 66°Norður. Fyrri eigendur höfðu rekið fyrirtækið í 50 ár, fannst tími til kominn að selja og Sigurjón sá tækifæri í því að færa rótgróið vörumerki inn í 21. öldina.

„Gæði höfðu alltaf verið í fyrirrúmi í rekstri 66°Norður og ég var staðráðinn í því að víkja ekki af þeirri braut. Ég hafði innsýn í fatabransann eftir tímann hjá Joe Boxer og sá að hægt væri að gera miklu meira með þessa vönduðu vöru. Alþjóðleg tískufyrirtæki voru byrjuð að færa sig í fatnað sem líktist meira útivistarfatnaði og ég horfði til fyrirtækja eins og Levi‘s og Carhartt, sem höfðu umbreyst úr vinnufataframleiðendum yfir í tískuvörumerki,“ segir Sigurjón sem seldi fyrirtækið árið 2011 til núverandi eigenda.

Horfir ekki í baksýnisspegilinn

Svo virðist sem flest fyrirtæki eða vörumerki sem þú hefur komið að lifi enn góðu lífi. Hver eru helstu vonbrigðin eða mistökin á þínum viðskiptaferli?

„Ég horfi ekki í baksýnisspegilinn heldur fram á veginn. En hefur eitthvað klikkað? Jú, ég fjárfesti í dönsku fasteignafélagi sem fór ekki vel í hruninu og ég stórtapaði mínu eigin fé. Ég hafði samt aldrei góða tilfinningu fyrir því að fara til Danmerkur til að stunda fasteignaviðskipti, vegna þess að ég þekkti markaðinn bara ekki nógu vel. Lexían sem ég lærði var að fylgja innsæinu í hvívetna en jafnframt forðast að fara inn á svið sem maður þekkir ekki,“ segir Sigurjón.

Um svipað leyti, eða fyrir um fimmtán árum síðan, keypti Sigurjón dönsku kvikmyndadreifinguna Scanbox Þá snerist rekstur fyrirtækisins aðallega um að dreifa DVD-diskum á bensínstöðvar en Sigurjón hefur byggt það upp í burðugt framleiðslufyrirtæki sem hefur komið að gerð fleiri hundruða kvikmynda, þáttaraða og annars afþreyingarefnis.

„Af hverju gekk Scanbox upp en ekki fasteignafélagið? Þótt það væri gífurlegt menningarsjokk að byrja að reka kvikmyndadreifingu í Danmörku þá þekkti ég bransann og vissi hvað ég ætlaði að gera við fyrirtækið,“ segir Sigurjón. Hann vinnur nú að því að færa reksturinn alfarið í hendur sonar síns, Þóris Snæs Sigurjónssonar og annarra í stjórnendateymi Scanbox.

Spurður hvort það sé til marks um að hann, 69 að aldri, sé að draga sig til hlés, þvertekur Sigurjón fyrir það. Hann segist vera með margar kvikmyndir í burðarliðnum og auk þess hefur hann fjárfest í Ólafsson Gin, sem er orðið söluhæsta ginið á Íslandi og tæknifyrirtækinu Saga VR í Bandaríkjunum sem vinnur að þróun sýndarveruleikasýningar þar sem sjá má helstu náttúruperlur Íslands með því einu að setja á sig sérstök sýndargleraugu.

„Minn hugur er alltaf í sköpun en ef ég ætla ekki að minnka við þá verð ég að vinna á snjallari hátt. Í kvikmyndagerð hef ég gengið í hvaða starf sem er en þegar maður er kominn á þennan aldur gengur það ekki upp. Þá verður maður að byrja að úthluta verkefnum og ákvörðunum,“ segir Sigurjón.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.