Erlent

Dauðsföllum vegna berkla fjölgar í fyrsta skipti í áratug

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Berklabakterían leggst helst á lungu og veldur einkennum eins og langvarandi hósta.
Berklabakterían leggst helst á lungu og veldur einkennum eins og langvarandi hósta. Getty/STR

Aukning hefur verið dauðsföllum vegna berkla í fyrsta skipti í áratug. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur að ástæðuna megi rekja til álags á heilbrigðiskerfið vegna kórónuveirufaraldursins.

Dauðsföllum vegna sjúkdómsins fjölgaði á síðasta ári þrátt fyrir mun færri sjúkdómsgreiningar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gaf út yfirlýsingu um málið í dag.

Framkvæmdastjóri WHO, Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, segir að skýrslan staðfesti að röskun á heilbrigðisþjónustu vegna faraldursins geti verið mikið bakslag í baráttunni við berkla.

Margt í heilbrigðisþjónustu setið á hakanum

WHO segir í yfirlýsingunni að margt í heilbrigðisþjónustu hafi fengið að sitja á hakanum vegna faraldurs kórónuveirunnar. Þjónusta við berklasjúklinga hafi orðið sérstaklega illa úti en færri leiti sér aðstoðar, til að mynda vegna samkomutakmarkana.

Berklar eru alvarlegur smitsjúkdómur og sýking er algengust í lungum.  Hægt er að bera bakteríuna alla ævi án þess að sjúkdómurinn komi fram en við veiklað ónæmiskerfi getur sjúkdómurinn tekið sig upp með alvarlegum afleiðingum. Um ein og hálf milljón manna lést af sjúkdómnum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×