Innlent

Fær ekki að hafa kött í blokk vegna ofnæmis nágranna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Fræðimönnum hefur ekki tekist að festa tölu á fjölda katta á Íslandi en einhverjir telja að nærri 20.000 kettir búi hér á landi. Myndin er úr safni.
Fræðimönnum hefur ekki tekist að festa tölu á fjölda katta á Íslandi en einhverjir telja að nærri 20.000 kettir búi hér á landi. Myndin er úr safni. Getty

Í nýlegu áliti kærunefndar húsamála segir að íbúum fjölbýlishúss í Reykjavík sé óheimilt að hafa ketti í húsinu vegna ofnæmis íbúa.

Álitið má rekja til ósættis milli íbúa í húsnæðinu. Sá sem mótmælti kattahaldi hafði meðal annars þurft að flýja heimili sitt vegna dýraofnæmis. Íbúinn hafði reglulega mótmælt dýrahaldi í húsinu en samkvæmt álitinu var hann eini í fjölbýlishúsinu sem var mótfallinn kattahaldi. 

Aðrir íbúar í stigaganginum segja að þegjandi samkomulag hafi ríkt um dýrahald í nokkur ár en kettir eru í þremur íbúðum af sjö. Þá hafi slíkt samkomulag aldrei verið skráð sérstaklega en enginn hafi verið mótfallinn dýrahaldinu fyrr en nú.

Þegar núgildandi lög um fjölbýlishús voru lögfest var dýrahald óheimilt án samþykkis allra íbúa. Lögunum hefur síðan þá verið breytt. Samkvæmt lögunum er hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi nú háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang.

Formlegt samkomulag um dýrahald hafði aldrei verið gert og taldi kærunefndin kattahald því óheimilt í húsinu. Eins og fram komi í lögunum beri að taka sameiginlegar ákvarðanir á sameiginlegum húsfundi. Ákvörðun um dýrahald í stigaganginum félli þar undir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×