Veiði

Báðar Rangárnar komnar yfir 3.000 laxa

Karl Lúðvíksson skrifar
Ytri-Rangá á fallegum degi.
Ytri-Rangá á fallegum degi. mynd/ gar

Nú berast lokatölur úr fleiri laxveiðiám enda er veiðitíminn í sjálfbæru ánum búinn en áfram er veitt í ánum sem byggja á sleppingum.

Ytri Rangá er ennþá á toppnum á listanum yfir aflahæstu árnar með 3.242 laxa og Eystri rétt 200 löxum neðar með 3.014 laxa. Lokatölur streyma nú inn og eru komnar úr mörgum ánum en talan í all mörgum ám hefur ekki verið uppfærð í viku og í sumum tilfellum tvær vikur eða meira.

Það ber kannski helst til tíðinda á listanum af Laxá í Kjós er komin yfir 1.000 laxa og var í gærkvöldi í 1.022 löxum og hefur ekki farið yfir 1.000 laxa síðan 2018. Þetta var ágætt sumar í Kjósinni og í raun víðar eins og í Norðurá en lokatalan þar er 1.431 lax. Þegar lokatölurnar eru skoðaðar og veiðitímabilið í heild var norður og austurland frekar slakt en vesturland svona nokkurn vegin á meðalári víða. Það er helst að nefna að veiðin í Langá hafi verið rólegri en menn áttu von á. Töluvert var af laxi í ánni en veiðimenn tala um að takan hafi verið mjög róleg hver svo sem skýringin kann að vera á því.

Þetta sumar er ekki alslæmt þó það séu vissulega vonbrigði með aflatölur víða en eitt stærsta áhyggjuefni veiðimanna var mikil veiði á hnúðlaxi svo að segja um allt land. Í sumum ánum mátti finna litlar torfur af hnúðlaxi og ljóst er að hann virðist vera farinn að hrygna í ánum en hvaða afleiðingar það hefur í för með sér fyrir Íslenska laxastofna er erfitt að nefna. Mjög víða á Kyrrahafsströnd Bandaríkjana og Kanada eiga laxategundir ágætt sambýli og má þar nefna Fraiser ánna í Bresku Kólombíu þar sem fimm laxategundir ásamt regnbogasilung, grailing og styrja deila þessu víðfemna vatnasvæði og hafa gert í þúsundir ára. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.