Innlent

Þrír til við­bótar greindust á Reyðar­firði í gær

Atli Ísleifsson skrifar
Um tuttugu hafa greinst með kórónuveiruna í Reyðarfirði síðustu daga.
Um tuttugu hafa greinst með kórónuveiruna í Reyðarfirði síðustu daga. Vísir/Vilhelm

Þrír greindust smitaðir af kórónuveirunni á Reyðarfirði í gær og voru þeir allir í sóttkví. Um tuttugu hafa greinst með kórónuveiruna í bænum síðustu daga.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Þar segir að um tvö hundruð manns hafi mætti í sýnatöku á Reyðarfirði í dag. Þar af stór hluti fólks sem hafi verið í sóttkví og fór í síðari skimun.

„Því miður er óljóst með flugferðir og landsamgöngur í dag vegna veðurs og því ekki ljóst hvort sýnin komist til Reykjavíkur til greininga fyrr en í fyrramálið. Rétt er að árétta að sóttkví gildir þar til niðurstaða úr sýnatökunni berst.

Ákvarðanir varðandi skólahald á Reyðarfirði verða því ekki teknar fyrr en í fyrsta lagi seinni partinn á morgun þegar niðurstöður úr sýnatöku dagsins liggja fyrir. Tilkynning um skólahald verður send um leið og niðurstöður berast,“ segir í tilkynningu.

22 eru í einangrun á Austurlandi og 206 í sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×