Neytendur

Telur við­skipta­hætti Borgunar ekki hafa verið villandi og ó­rétt­mæta

Atli Ísleifsson skrifar
Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi fram komið í málinu sem sýnt gæti fram að Borgun hafi beitt villandi eða óréttmætum viðskiptaháttum.
Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi fram komið í málinu sem sýnt gæti fram að Borgun hafi beitt villandi eða óréttmætum viðskiptaháttum. Getty

Neytendastofa telur ekki tilefni til aðgerða af hálfu stofnunarinnar eftir kvörtun Rapyd Europe hf. þar sem fyrirtækið sakaði samkeppnisaðilann Borgun um villandi og óréttmæta viðskiptahætti.

Í kvörtun Rapyd kom fram að starfsmenn Borgunar hafi nálgast viðskiptavini Rapyd undir fölskum formerkjum og talið þeim trú um að Borgun væri búið að kaupa greiðsluþjónustufyrirtækið sem viðskiptavinirnir væru í viðskiptum við.

„Starfsmenn Borgunar hafi mætt fyrirvaralaust og óumbeðið á starfsstöð viðskiptavina Rapyd og skipt eða reynt að skipta um greiðsluposa án þess að afla fyrirfram skriflegs samþykkis og án þess að gera við þá þjónustusamning.

Borgun hafnaði málatilbúnaði Rapyd að öllu leyti sem röngum og ósönnuðum. Félagið hafi verið í söluátaki þar sem starfsmenn hafi heimsótt núverandi og nýja viðskiptavini. Slíkt framferði fyrirtækis, að gefa sig á tal við nýja viðskiptavini, í því skyni að afla viðskipta, verði að telja eðlilegan hluta af starfsemi allra fyrirtækja.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi fram komið í málinu sem sýnt gæti fram að Borgun hafi beitt villandi eða óréttmætum viðskiptaháttum.

Var það því mat Neytendastofu að ekki væri tilefni til aðgerða af hálfu stofnunarinnar í málinu,“ segir á vef Neytendastofu.

Nýleg eigendaskipti hafi valdið ruglingi

Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að það liggi fyrir að bæði Rapyd og Borgun hafi nýverið gengið í gegnum eigendaskipti og því samhliða nafnaskipti. Rapyd hafi áður heitið Korta og Borgun heiti nú Salt Pay. 

„Að mati Neytendastofu má leiða líkum að því að sá misskilningur sem seljendur virðast hafa upplifað í framangreindum tilvikum megi rekja til umræddra eigenda- og nafnaskipta. Neytendastofa hvetur bæði fyrirtæki til að gæta þess í samskiptum sínum við viðskiptamenn og aðra aðila að vera skýr í allri upplýsingagjöf og kynningarefni,“ segir meðal annars í ákvörðun Neytendastofu

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.