Makamál

Pör ástfangnari sem hamast og svitna saman

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Rannsóknir sýna að þau pör sem stunda einhverja hreyfingu saman, hvort sem það er líkamsrækt eða einhvers konar útivist, eru hamingjusamari. 
Rannsóknir sýna að þau pör sem stunda einhverja hreyfingu saman, hvort sem það er líkamsrækt eða einhvers konar útivist, eru hamingjusamari.  Getty

Í ástarsambandi skiptir miklu máli að eiga gæðastund með makanum. Á sama tíma er einnig mikilvægt að sinna sjálfum sér og gera hluti í sitthvoru lagi. En hvað með líkamsræktina? 

Í síðustu viku spurðu Makamál lesendur Vísis hvort að þeir stundi líkamsrækt með makanum sínum.

Rúmlega tólfhundruð manns tóku þátt í könnuninni og ef marka má niðurstöðurnar segjast flest pör annað hvort stunda líkamsrækt saman eða langa til þess. 

Aðeins 8% sögðust ekki hafa áhuga á því að stunda líkamsrækt með makanum. 


Niðurstöður*

Já, reglulega - 32%

Já, stundum - 26%

Nei, en væri til í það - 34%

Nei, vil það ekki - 8%


Sumir gætu spurt sig hvort að það sé jafnvel betra að æfa einn eða með vinum og svo eru önnur pör sem hreinilega ekki hafa tök á því að æfa saman. 

En það að taka frá tíma saman til þess að stunda einhvers konar hreyfingu eða íþrótt ætti þó að vera ofarlega á forgangslista para, þó svo að það sé ekki endilega ræktin þrisvar í viku eða regluleg hlaup. 

Þetta þarf ekki að vera svo flókið. 

Fylgni milli hrifningar og adrenalíns

En afhverju æfa saman? Er ekki nóg að hafa bara kósý stund heima eða fara út að borða?

Auðvitað eru allar gæðastundir góðar fyrir sambandið en samkvæmt rannsóknum eru pör sem æfa saman, eða stunda einhvers konar hreyfingu eða útivist saman, hamingjusamari í sambandinu sínu og viti menn, meira ástfangin.

Aðrar rannsóknir sýna einnig fram á jákvæða fylgni á milli hrifningar og adrenalíns.  Lífeðlisfræðileg einkenni hreyfingar geta því jafnast á við þá örvun sem þú upplifir í rómantísku sambandi.

Hraðari hjartsláttur og aukið magn svita virðist því hafa jákvæð áhrif á þá hrifningu sem þú berð til annars aðila.

Þar höfum við það. 

Þá er ekkert annað í stöðunni vippa sér út með makanum og beint í tennis, göngutúr, skokk eða jafnvel bara gömlu góðu Jane Fonda æfingarnar. 

Þó svo að Makamál hafi ekki fundið neinar hávísindalegar rannsóknir því stuðnings er mjög líklega hægt að hámarka árangur æfinga með maka ef pör klæðast fatnaði í stíl. 

Ekki skemmir ef fatnaðurinn er í vel æpandi litum og hressilega munstraður. 


Ertu búin(n) að svara nýjustu Spurningu vikunnar? 

*Tekið skal fram að niðurstöður byggjast eingöngu á svörum lesenda Vísis og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður. Kannanir Makamála eru ætlaðar til skemmtunar og til að vekja umræðu og athygli á ýmsum málefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×