Erlent

Fara hús úr húsi í leit að skotmörkum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alþjóðsamfélagið virðist ekki hafa mikla trú á því að stjórn Talibana verði mildari í þetta skiptið.
Alþjóðsamfélagið virðist ekki hafa mikla trú á því að stjórn Talibana verði mildari í þetta skiptið. AP Photo/Rahmat Gul

Hermenn Talibana í Afganistan fara nú hús úr húsi í Kabúl í leit að einstaklingum sem störfuðu fyrir herlið Atlantshafsbandalagsins eða fyrrverandi ríkisstjórn landsins.

Þetta kemur fram í greiningu norsku rannsóknarstofnunarinnar RHIPTO sem safnar saman upplýsingum og gögnum fyrir Sameinuðu þjóðirnar. BBC greinir frá því að í skýrslu stofnunarinnar komi fram að hermenn Talibana fari hús úr húsi til þess að leita að skotmörkum eða til að ógna fjölskyldumeðlimum þeirra.

„Fjöldi einstaklinga er á lista Talibana og ógnin er alveg á kristaltæru,“ hefur BBC eftir Christian Nellemann sem stýrir RHIPTO. Segir hann að hver sá sem sé á svörtum lista Taliba sé í stórhættu. Þá sé möguleikinn á því að Talibanar framkvæmi fjöldaaftökur fyrir hendi.

Þýski fjölmiðilinn Deutsche Welle greindi frá því í dag að Talibanar hefði myrt fjölskyldumeðlim blaðamanns sem starfar fyrir fjölmiðilinn. Var hann myrtur þegar Talibanar fóru hús úr húsi í leit að blaðamanninum, sem nú er staddur í Þýskalandi, að því er fram kemur á vef fjölmiðilsins.

Leiðtogar Talibana hafa heitið því að virða mannréttindi og að fyrrum óvinir þeirra hafi ekkert að óttast nú þegar þeir hafa tekið völdin í landinu. Margir landsmenn eru þó fullir efasemda um þau loforð enda minnugir ógnarstjórnarinnar sem talibana stóðu fyrir þegar þeir voru síðast við völd frá 1996 til 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×