Innlent

Forsetahjónin á World Pride

Heimir Már Pétursson skrifar
Guðni og Eliza munu halda ræður á World Pride í Danmörku og Svíþjóð.
Guðni og Eliza munu halda ræður á World Pride í Danmörku og Svíþjóð. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú taka þátt í World Pride í Kaupmannahöfn og Málmey á næstu dögum.

Forsetinn flytur setningarræðu á alþjóðaráðstefnu um mannréttindi í Øksnehallen í Kaupmannahöfn á morgun. 

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að á föstudag haldi hann síðan framsöguræðu á danska þinginu á alþjóðlegum viðburði sem rúmlega tvö hundruð stjórnmálamenn frá fimmtíu og þremur löndum sækja í tengslum við World Pride. 

World Pride er titill sem alþjóðasamtök hinsegin hátíða, InterPride, veita hinsegin hátíðum annað hvort ár. Í tilkynningunni segir að Eliza Reid forsetafrú muni halda ávarp á ráðstefnu um flóttamenn, „Refugees, Borders and Immigration,“ í Málmey í Svíþjóð á föstudag. Þar sem sjónum verði beint að stöðu hinsegin flóttafólks og hælisleitenda. 

Meðan á Danmerkurdvöl forsetahjónanna standi muni þau funda með Friðriki krónprins Dana og Mary krónprinsessu sem væri verndari World Pride hátíðarinnar í Kaupmannahöfn. Auk þess sæki forsetahjónin Jónshús heim og hitti þar Íslendinga búsetta í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×