Innlent

Glóandi hraun aftur sjáanlegt á Fagradalsfjalli

Eiður Þór Árnason skrifar
Gosvirknin í Fagradalsfjalli hefur verið sveiflukennd síðustu vikur. 
Gosvirknin í Fagradalsfjalli hefur verið sveiflukennd síðustu vikur.  Vísir/Vilhelm

Hraun er aftur tekið að renna á Fagradalsfjalli í fyrsta sinn frá því á mánudagsmorgun. Hraunárnar hafa nær alfarið runnið til austurs og niður í Meradali síðustu vikur en hraunáin virðist núna hafa tekið stefnu í aðra átt.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. Hraun hefur ekki lekið niður í Nátthaga í meira en mánuð og fylgist hópurinn nú grannt með því hvort breyting verði þar á næstu klukkustundir.

„Óróinn hefur verið á hægri uppleið síðustu sólarhringa og hefur glóð sést af og til í gígnum. Fyrst núna hefur þó virknin verið nægilega kraftmikil til að mynda hraunstreymi út úr gígnum. Samhliða þessu sjást gusur skvettast innan í gígnum á ný,“ segir í færslunni.

Hraunstraumurinn sést nokkuð vel á vefmyndavél Vísis en fylgjast má með útsendingunni í spilaranum hér fyrir neðan og á stöðinni Stöð 2 Vísir á myndlyklum Símans og Vodafone.


Tengdar fréttir

Lýsir mikilli partýstemmningu við eldgosið

Segja má að stemmingunni við eldgosinu í Fagradalsfjalli sé líkt við útihátíð eða næturklúbb í nýrri grein í veftímaritinu Condé Nast Traveler.

Gosið hrekkjótt og lætur vísindamenn hafa fyrir sér

Eftir að verulega hafði sljákkað í gosinu á Reykjanesi og margir farnir að sjá fyrir sér að það væri við að lognast út af hefur það tekið verulega við sér síðasta sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×