Makamál

Ástarsagan sem er að trylla Twitter: „Hann geymir ennþá öll bréfin“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Elva Ágústsdóttir fór sautján ára með fjölskyldunni sinni til Portúgal árið 1997 og varð yfir sig ástfangin af Breta. Hún deildi sögunni af unglingsástinni á Twitter í gær og hefur tístið hlotið mikla athygli.  
Elva Ágústsdóttir fór sautján ára með fjölskyldunni sinni til Portúgal árið 1997 og varð yfir sig ástfangin af Breta. Hún deildi sögunni af unglingsástinni á Twitter í gær og hefur tístið hlotið mikla athygli.  

Það er ekkert eins skemmtilegt og góð, sönn saga. Sérstaklega þegar sagan er ástarsaga. Og ekki skemmir það fyrir þegar sagan er bráðfyndin. 

Sálfræðikennarinn Elva Ágústsdóttir vakti mikla athygli fyrir tíst á samfélagsmiðlinum Twitter í gær þar sem hún deilir skemmtilegri sögu úr lífi sínu. 

Í samtali við Makamál segist Elva ekki hafa gert sér grein fyrir því að tístið myndi vekja svo mikla athygli en henni hafi einfaldlega leiðst og því ákveðið að deila sögunni til að skemmta sér og öðrum. 

Elva starfar sem sálfræðikennari í MH og heldur einnig úti hlaðvarpsþættinum Poppsálin. 

Makamál fengu leyfi Elvu til þess að birta söguna sem minnir einna helst á rómantíska unglingabíómynd frá níunda áratugnum.


Saga úr raunveruleikanum fyrir ykkur sem leiðist jafn mikið og mér

Þegar ég var 17 ára var ég í fríi með foreldrum mínum í Portúgal. Þar kynntist ég Breta sem var að vinna á bar. 

Við byrjuðum saman, eins og fólk gerir í svona sumarævintýrum. Við vorum rosalega ástfangin í þrjár vikur.

Þegar ég kom heim héldum við sambandi með því að skrifast á (árið var sko 1997). Eitt bréfið var ólíkt öðrum. Þegar bréfið var hálfnað tók við önnur skrift og strákur sem heitir Adam byrjaði að skrifa. Adam var herbergisfélagi hans og vinur og vildi kasta kveðju á íslensku stelpuna.

Við héldum áfram að skrifast á í nokkra mánuði. Hann sendi mér krúttlega hluti eins og hálsmen með hálfu hjarta og kasettu með laginu Im horny, endurtekið, á báðum hliðum!

Hjartahálsmenið vel varðveitt. 

Eftir nokkra mánuði hættum við að senda bréf og ég heyrði ekkert í honum.

Tveimur árum seinna pantaði ég mér pizzu. Ég hafði verið rúmliggjandi í mánuð þar sem ég náði mér í ógeðslega lungnabólgu. Ég var vægast sagt ógeðslega útlítandi.

Sendillinn mætir heim til mín í Fossvog og hver haldiði að sé mættur? Nú auðvitað breski kæró!  Með Dominos pizzu.  Á Íslandi!

Breski, reifdansandi hjartaknúsarinn hafði þá kynnst annarri íslenskri stelpu ári seinna, þar sem hann var að vinna á barnum í Portúgal og flutti með henni sumarið eftir til Íslands. 

Elva segist enn eiga öll ástarbréfin frá Nick en hér má sjá mynd af bréfinu sem Adam vinur hans skrifaði Elvu. 

Ég sé Bretann minn nokkrum sinnum eftir það og erum við nú vinir á Facebook.

 En sagan heldur áfram.

Fjórum árum eftir sumarævintýrið mitt í Portúgal fer ég aftur þangað með þáverandi manni mínum. Við göngum fram að stað með íslenskum matseðli. Stoppum og byrjum að lesa. 

Út kemur breskur þjónn og við förum að spyrja út í íslenskuna. Hann sagðist eiga íslenska vinkonu.

Hann var æstur í að fá að vita hvort við þekktum ekki örugglega þessa íslensku stelpu. Landið náttúrulega svo lítið. Nei, nei, stelpuna þekktum við þó ekki. 

Mynd af Bretanum hennar Elvu, Nick, sem hún birti á Twitter og ritaði undir: Hann vann ekki bara sem barþjónn hann var líka STYTTA!!!!!!!! NO FOKKING DJÓK!

En þegar hann útskýrði mál sitt frekar kom í ljós að stelpan var kærasta vinar hans sem var Breti sem flutti til Íslands.  Og AÐ SJÁLFSÖGÐU var það Bretinn minn! 

Og viti fólk, Þetta var ADAM! Bréfaþjófurinn ADAM!

Þetta var ansi fyndinn hittingur. 

Og sagan er EKKI enn búin. Enginn svaka endir þó. Mér bara leiðist og ákvað að segja ykkur þessa raunverulegu en um leið lygilegu sögu.

Nokkrum árum síðar var ég stödd í Bláa lóninu. Þar sé ég breska sumar kæró og Adam vin hans. Adam þessi hafði þá sumarið þar á undan verið að vinna á veitingastaðnum í Portúgal og fengið fánastöng í höfuðið, grætt fullt af pening og var þarna í brúðkaupsferð í lóninu.

Í dag er Bretinn minn þó fluttur aftur heim og hættur með íslensku stelpunni. En ég á ennþá hálfa hjartað, öll bréfin og heila kasettu með laginu I'm Horny.


Elva hafði samband við „Bretann sinn“ áður en þessi grein var rituð til þess að fá samþykki hans fyrir myndbirtingunni og segja honum frá tístinu.

Honum fannst þetta mjög fyndið allt og já, hann upplýsti mig um það í dag að hann ætti ennþá öll bréfin frá mér síðan '97.


Makamál taka fagnandi á móti öllum ábendingum um íslenskar skemmtilegar sögur tengdar ástinni. 

Hægt er að senda tölvupóst á netfangið makamal@syn.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.